Skip to main content
10. október 2022

KUSK á fyrstu Háskólatónleikum vetrarsins

KUSK á fyrstu Háskólatónleikum vetrarsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Raftónlistarkonan KUSK, eða Kolbrún Óskarsdóttir, ríður á vaðið á fyrstu Háskólatónleikum þessa skólaárs en hún treður upp á Háskólatorgi miðvikudaginn 12. október kl. 12.15. Tónleikarnir eru öllum opnir en þeir verða líka í streymi.

KUSK sigraði í Músíktilraunum með miklum glæsibrag í vor, einungis nítján ára gömul, og þetta var í fyrsta skipti í 40 ára sögu Tilraunanna sem einstaklingur gerir það. Hún er verðugur fulltrúi nýrrar kynslóðar í tónlist, sem ber með sér nýjar áherslur og hugsjónir, veri það í fatavali, umhverfispólitík eða í sjálfri tónlistinni. KUSK er á miklu flugi nú um stundir og talar beint inn í samtímann þar sem tónlistarkonur eins og Bríet og GDRN fara mikinn. Örugg á sviði og sjarmerandi, tónlistin svalt og umlykjandi rafpopp með vísunum í Vök og GusGus. 

Tónleikarnir fara sem fyrr segir fram miðvikudaginn 12. október og hefjast leikar kl. 12.15. Staðurinn er Háskólatorg og leikur KUSK á sviðinu gegnt Bóksölunni. Tónleikunum verður einnig streymt og einnig er hægt að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls. 

 Um Háskólatónleika

Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur á vef Háskólans.

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um reglulega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans.

Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“. Fólk geti því búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svosem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni.

Rafatónlistarkonan KUSK, eða Kolbrún Óskarsdóttir