Skip to main content
1. júlí 2022

Kveður Háskólaútgáfuna eftir nærri 30 ára uppbyggingarstarf

Kveður Háskólaútgáfuna eftir nærri 30 ára uppbyggingarstarf - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eftir nærri þrjátíu ára starf við uppbyggingu Háskólaútgáfunnar og virka þátttöku í félags- og kjaramálum starfsfólks Háskóla Íslands er Jörundur Guðmundsson að láta af störfum. Hann kveður skólann þakklátur og sáttur og segist ekki hræddur um framtíð fræðibóka, útgáfustarf Háskólaútgáfunnar, sem er önnur stærsta bókaútgáfa landsins, geti orðið einn þáttur í eflingu Háskólans til framtíðar.

Háskólaútgáfan er nú til húsa í kjallara Aðalbyggingar en hefur í gegnum árin verið á ýmsum stöðum í Vesturbænum. Útgáfan sérhæfir sig í að gefa út fræðibækur í samstarfi við vísindamenn Háskóla Íslands en útgáfa slíkra bóka lýtur alla jafna ströngum alþjóðlegum mælikvörðum við miðlun þekkingar og birtingu rannsóknaniðurstaðna. Háskólaútgáfan hefur einnig gefið út ýmsar bækur sem tengjast starfsemi HÍ á einhvern hátt, eins og sögu Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands, en líka efni fyrir og í samstarfi við aðra háskóla á Íslandi og stofnanir tengdar Háskóla Íslands.

Á annað þúsund titlar gefnir út

Jörundur, sem er heimspekingur að mennt, kom til starfa við Háskólaútgáfuna árið 1994 en hann hafði þá starfað við útgáfumál hjá bæði Birtingi og Svart á hvítu. „Þórður Kristinsson hafði komið útgáfunni á fót en lítið verið gefið út. Ég hafði þá þegar öðlast átta ára reynslu af bókaútgáfu og hann beitti sér fyrir því ásamt öðrum að ég yrði fenginn til þess að koma útgáfunni í varanlegan farveg og skapa þannig alvöru bókaútgáfu fyrir Háskóla Íslands,“ segir Jörundur um upphaf starfa sinna fyrir Háskólaútgáfuna.

Aðspurður segir segir hann starfið innan útgáfunnar hafa þróast mikið á þessum tíma líkt og starf skólans almennt. „Lengi vel var ekki mikill skilningur á því að til þess að reka góða útgáfu þyrfti aukin stöðugildi. Árangur af óritstýrðri útgáfu var ekki góður en með auknum skilningi á þörfinni tókst að koma á virkri ritstjórn og ritrýni. Ég tel í dag að krafan um sjálfbærni útgáfunnar hafi þá verið of mikil og gjaldtaka fyrir unnin verk á kostnað höfunda hafi reynst okkar höfundum of íþyngjandi. Engu að síður hefur tekist að koma út a.m.k. 1.200-1.300 titlum á þessum tíma og í raun hefur útgáfan lengst af verið önnur stærsta útgáfa landsins, en fæstir vitað af því,“ segir Jörundur en bækur Háskólaútgáfunnar eru á mjög fjölbreyttum fræðasviðum.

haskolautgafan

Jörundur ásamt samstarfsfólki við Háskólaútgáfuna fyrir nokkrum árum. Frá vinstri: Styrmir Goðason, Sigríður Harðardóttir, Jörundur og Egill Arnarson. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægur birtingarvettvangur fyrir fjölmargar fræðigreinar á Íslandi

Góð þjónusta við akademíska starfsmenn Háskólans og gæðaeftirlit hefur verið mikið áhersluatriði í starfi Háskólaútgáfunnar að sögn Jörundar. Í því felst bæði virk ritstjórn og ritrýni þeirra verka sem gefin eru út til þess að tryggja að þær standist akademískar kröfur. „Mikilvægi akademískrar útgáfu er afgerandi fyrir HÍ, því aðrir útgáfukostir eru nær eingöngu forlög sem rekin eru með hagnað að leiðarljósi og því ólíklegt að stór hluti okkar verka kæmi nokkurn tíma út. Eins er það að t.a.m. raungreinar eiga sinn farveg í margvíslegum erlendum tímaritum og færri birtingarvettvangar eru fyrir aðrar fræðigreinar, eins og t.d. þær greinar sem snerta íslenska tungu og veruleika. Þar gegnir útgáfan mikilvægu hlutverki,“ bendir Jörundur á.

Þjónustan við lesendur hefur ekki síður verið í þróun og Háskólaútgáfan opnaði í fyrra sína eigin vefverslun sem á í senn að auðvelda markaðssetningu útgefinna bóka og auka sýnileika Háskólaútgáfunnar innan og utan skólans. Þá er jafnframt unnið að því að færa hluta bókakostsins á rafbókaform til sölu en slíkar bækur njóta vaxandi vinsælda.

bok

Bækur Háskólaútgáfunnar margoft verið tilnefndar til hinna ýmsu bókmenntaviðurkenninga hér á landi og hreppt ýmis verðlaun. Útgáfan er sannarlega sérhæfð en engu að síður hafa ýmis verkanna sem Háskólaútgáfan hefur gefið út notið mikillar hylli í samfélaginu. „Ein bók öðrum fremur hefur gert sig vel í samfélaginu en það er bókin Leitin að tilgangi lífsins eftir austurríska sálfræðinginn og heimspekinginn Viktor Frankl. Bókin hefur frá upphafi selt sig sjálf af eigin orðspori. Frankl sjálfur lagði svo fyrir að hugsanlegur hagnaður af útgáfu hennar rynni til stuðnings barna sem á aðstoð þyrftu að halda og hefur svo verið gert af okkar hálfu og Siðfræðistofnunar. Önnur bók sem stendur langt upp úr fræðiverkum okkar er bókin Náttúrusýn þar sem valinkunnustu jarðvísndamenn landsins taka saman allt sem vitað er um fræði jarðvísinda á Íslandi. Persónulega hef ég hrifist mjög af bókum Helga Guðmundssonar og samstarfi við hann,“ segir Jörundur þegar hann er inntur eftir eftirminnilegum bókum í útgáfustarfinu.

Fræðibókin mun ávallt standa fyrir sínu

Á tímum hraðra tæknibreytinga og stöðugra nýjunga í samfélaginu hefur bókinni margsinnis verið spáð dauða en aðspurður segir Jörundur að fræðibókin muni alla tíð standa fyrir sínu. „Það gerir eðli fræðilegra rannsókna. Rafvæðing er ekki annað en hjálpartæki þar. Allt öðru máli gegnir um t.d. skáldskaparútgáfu og nú þegar eru hljóð- og rafbækur orðnar fyrirferðarmiklar en ómögulegt að segja til um framtíð slíkrar útgáfu,“ segir hann.

Jörundur vekur athygli á því að nýleg lög um stuðning við íslenska bókaútgáfu sem hafa að markmiði að styrkja íslenska tungu geri ekki ráð fyrir stuðningi við forlög eins og Háskólaútgáfuna. „Þarna er um vissa mismunun að ræða sem forvígismenn einkaútgáfanna beittu sér fyrir. Það er sérkennilegt að ekki sé þörf á að styðja fræðibókaútgáfu þar sem hún sé í eigu ríkisins, sérstaklega með tilliti til þess að höfundar okkar eru sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir sínum útgáfuverkum,“ bendir hann á.

„Mikilvægi akademískrar útgáfu er afgerandi fyrir HÍ, því aðrir útgáfukostir eru nær eingöngu forlög sem rekin eru með hagnað að leiðarljósi og því ólíklegt að stór hluti okkar verka kæmi nokkurn tíma út. Eins er það að t.a.m. raungreinar eiga sinn farveg í margvíslegum erlendum tímaritum og færri birtingarvettvangar eru fyrir aðrar fræðigreinar, eins og t.d. þær greinar sem snerta íslenska tungu og veruleika. Þar gegnir útgáfan mikilvægu hlutverki,“ segir Jörundur Guðmundsson

Bætt hlutskipti stjórnsýslufólks

Jörundur hefur ekki aðeins látið til sín taka í útgáfumálum innan skólans heldur einnig verið virkur í félags- og kjaramálum starfsfólks. Hefur hann m.a. verið í forystusveit Félags háskólakennara og lagt þar sérstaka áherslu á hlut starfsfólks í stjórnsýslu. 

„Skömmu eftir að ég hóf störf við HÍ þótti mér mjög halla á hlutskipti stjórnsýslufólks þrátt fyrir að það hefði svipaða menntun og akademískir starfsmenn. Þátttaka í kjaraviðræðum, þar sem ég reyndi að skapa stjórnsýslufólki sérstöðu, leiddi síðan af sér talsverðan árangur og kenndi mér margt um samningamál. Þetta varð síðan til þess að ég endaði sem formaður félagsins og gaf sú vinna mér mikið því samstarf með kjörnum fulltrúum og framkvæmdastjóra leiddi margt gott af sér, bæði fyrir akademíska starfsmenn og stjórnsýslu,“ segir Jörundur.

halldorsstadir

Hús Halldórsstaðafélagsins í Laxárdal. 

Uppbygging á Halldórsstöðum

Jörundur hefur auk þess ásamt hópi starfsfólks innan skólans byggt upp svokallað Halldórsstaðafélag sem hverfist um rekstur sumarhúss á jörðinni Halldórsstöðum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu en Háskólanum var gefinn helmingur jarðarinnar snemma á 20. öldinni. Á Halldórsstöðum hafa Jörundur og félagar breytt fyrrverandi vinnuskúrum Landsvirkjunar í sannakallaða sumarhöll fyrir starfsfólk HÍ þar sem útsýnið yfir Laxárdalinn er ægifagurt. 

Jörundur segir að aðkoma hans að félaginu og húsinu að Halldórsstöðum hafi hafist í gegnum Félag háskólakennara. „Húsið var í mikilli niðurníðslu þannig að FH skilaði húsinu til HÍ en það var rekið fyrstu árin sem orlofshús þess félags. Úr varð að ásamt tveimur samstarfsmönnum og vinum innan HÍ tókum við húsið að okkur og endurguldum fyrir með því að koma því aftur í nothæft ástand. Síðan varð það úr að Páll Skúlason, þáverandi rektor, lagði til að starfsmenn HÍ gætu stofnað með sér félag til að nýta húsið. Jafnframt veitti hann meðlag til endurnýjunar þess í formi arðs sem HÍ hefur fengið greiddan sem landeigandi í veiðifélagi árinnar sem rennur í gegnum dalinn,“ segir Jörundur um upphafið að framkvæmdum við Halldórsstaði.

Hann segist jafnframt hafa verið mjög áhugasamur um Halldórsstaði vegna fegurðar dalsins „og ekki hvað síst vegna æsku minnar á svipuðum slóðum þar sem ég var í sveit um árabil. Því tók ég þetta verk að mér ásamt félögunum tveimur og í dag hefur tekist að endurgera húsið verulega. Þar hefur Jón Atli Benediktsson, núverandi rektor, veitt okkur góðan stuðning til viðhalds. Félagsmenn eru rúmlega 70 nú en félagið er öllum opið.“

Efling útgáfu sem liður í eflingu HÍ

Aðspurður hvað standi upp úr nú eftir nær þriggja áratuga starf við Háskólaútgáfuna og innan HÍ segir Jörundur að það sé sú staðfasta trú hans að áframhaldandi útgáfustarfsemi HÍ sé starfsfólki og stofnuninni til heilla. „Efla þarf stuðning við útgáfuna og auka enn á öfluga ritstjórn og gæðastjórnun. Þannig getur útgáfan verið einn þáttur í eflingu Háskólans,“ bendir hann á. 

Hann segist líka þakklátur fyrir þann stóra hóp sem hann hefur kynnst í störfum sínum við skólann, bæði samstarfsfólk og viðskiptavini, og stuðning sem hann hefur fengið í veikindum sem herjað hafa á hann á síðustu árum. „Ánægja er samheiti þess að hafa starfað á þessum vettvangi og þakklæti fyrir stuðning HÍ er veikindi sóttu að. Þar fer stofnun sem rekur styrka starfsmannastefnu, rekin áfram af mannúð og velvilja til handa sínum og er öðrum til fyrirmyndar,“ segir Jörundur að endingu.

Jörundur Guðmundsson