Kyngervi, ofbeldi og fyrrum átakasvæði á nýju edX-námskeiði HÍ
Háskóli Íslands hefur opnað fyrir skráningu í nýtt, opið netnámskeið sem Jafnréttiskólinn (GRÓ-GEST) hefur þróað innan edX-samstarfsins en það nefnist Kyngervi, ofbeldi og fyrrum átakasvæði (e. Gender, Violence and Post-Conflict States) og hefst 29. ágúst nk.
Það er nauðsynlegt fyrir öll þau sem hyggja á störf í alþjóða- og þróunarmálum að hafa þekkingu á því hvaða hlutverki kyn og kyngervi gegna í tengslum við ofbeldi í stríðsátökum og í kjölfar þeirra. Á námskeiðinu fá þátttakendur innsýn í hvernig samþætta má ólíkar kyn- og kyngervisbreytur við mismunandi tegundir ofbeldis, uppbyggilega réttvísi, aðskilnaðarstefnu (e. apartheid), friðargæslu og alþjóðlega stefnumótun tengda kynferðis- og kynbundnu ofbeldi.
Virtir alþjóðlegir sérfræðingar á þessu sviði varpa kynjuðu ljósi á flókin mál í þróunarsamvinnu og almennt á alþjóðavettvangi og gera þátttakendum í námskeiðinu kleift að greina og fjalla um stjórnmálaástand á átakasvæðum á grundvelli réttlætis og margbreytileika. Námskeiðið er þáttur í starfsemi Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GRÓ-GEST) sem er rekinn við Hugvísindasvið Háskóla Íslands undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.
„Námskeiðið er sniðið að þeim sem eru að íhuga eða hyggja á framtíðarstörf í þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi eða vilja kynna sér grunnkenningar, tilviksrannsóknir og aðferðir við stefnumörkun sem er nauðsynlegt að þekkja til að skilja samspil kyngervis og ofbeldis í stríðsátökum eða í kjölfar stríðsátaka," segja Giti Chandra, rithöfundur og vísindamaður, og Thomas Brorsen Smidt, verkefnis- og rannsóknastjóri, sem bæði starfa fyrir Jafnréttisskólann (GRÓ-GEST). Námskeiðið er einnig gagnlegt nemendum sem leggja stund á nám sem tengist friðarmálum, þróunarstarfi og/eða alþjóðasamskiptum og vilja læra að beita kynjuðu sjónarhorni.
EdX er alþjóðlegt samstarfsnet háskóla um rekstur opinna netnámskeiða sem bandarísku háskólarnir Harvard og MIT leiða og Háskóli Íslands hefur verið aðili að undanfarin fimm ár. Markmiðið með þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi. Þetta er sjöunda netnámskeiðið sem skólinn býður upp á innan edX-netsins.