9. mars 2025
Kynningar á háskólanámi víða um land á næstunni

Fulltrúar Háskóla Íslands og annarra háskóla á Íslandi verða á ferð og flugi um landið í vikunni og síðar í mánuðinum að kynna það fjölbreytta nám sem í boði er við skólana.
Háskólarnir hafa um árabil starfað saman undir hatti Háskóladagsins og kynnt háskólanám fyrir áhugasömum framhaldsskólanemum og öðrum, bæði í Reykjavík og víðar um landið.
Háskóladagurinn í Reykjavík fór fram 1. mars síðastliðinn og heppnaðist afar vel en þúsundir lögðu leið sína á kynningar skólanna.
Nú er komið að kynningum á landsbyggðinni og verða fulltrúar allra háskóla landsins með kynningar á eftirfarandi stöðum:
- Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði mánudaginn 10. mars kl. 11:30-13:00
- Menntaskólanum á Egilsstöðum þriðjudaginn 11. mars kl. 11:30-13:00
- Háskólanum á Akureyri miðvikudaginn 12. mars kl. 11:00-13:00
Þar að auki munu fulltrúar Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum heimsækja tvo aðra staði:
- Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki fimmtudaginn 13. mars kl. 11:00-12:30
- Menntaskólann á Ísafirði föstudaginn 28. mars kl. 12:30-14:00
Allar kynningarnar eru opnar öllum áhugasömum.