Kynvillta bókmenntahornið eins árs
Kynvillta bókmenntahornið – spjall um hinsegin bókmenntir er greinaflokkur á hugras.is, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, sem hóf göngu sína fyrir ári síðan að frumkvæði Ástu Kristínar Benediktsdóttur, lektors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar fjalla nemendur við deildina um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum og lesa á skjön, skyggnast út fyrir síðurnar og skoða það sem býr á milli línanna, eins og segir í kynningu. Meðal þess sem pistlahöfundar hafa fjallað um hingað til eru trans persónur í íslenskum bókmenntum, hómóerótík í ljóðum Nínu Bjarkar Árnadóttur, hinseginleikann í Undantekningu Auðar Övu og Einu sinni sögur Kristínar Ómarsdóttur.
Ásta Kristín segir að Kynvillta bókmenntahornið hafi í fyrstu verið hennar eigið blogg um hinsegin bókmenntir en hún hafi ákveðið að blása auknu lífi í þennan umræðuvettvang eftir að hún kom til starfa innan Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Til þess fékkst styrkur frá skólanum sem er ætlaður til að hvetja fræðafólk til samfélagsvirkni í samræmi við stefnu HÍ um virka þátttöku í samfélagi og atvinnulífi. Í kjölfarið safnaði hún saman hópi nemenda úr ýmsum menningargreinum við HÍ sem hafi skrifað efni í Kynvillta bókmenntahornið og ritstýrt hvert öðru. Ásta segist ánægð með afraksturinn og að vonandi sé þessi vettvangur fyrir umræðu um hinsegin bókmenntir kominn til að vera.
Í Hugvarpi – hlaðvarpi Hugvísindasviðs HÍ var rætt við Ástu Kristínu og Unni Steinu K. Karls, meistaranema við Íslensku- og menningardeild, sem er höfundur þriggja pistla um trans persónur í íslenkum bókmenntum.