Skip to main content
21. nóvember 2024

Lancet birtir íslenska rannsókn á tengslum litíums við langvinnan nýrnasjúkdóm

Lancet birtir íslenska rannsókn á tengslum litíums við langvinnan nýrnasjúkdóm - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hið virta vísindarit í geðlæknisfræði, Lancet Psychiatry, birti í gær vísindagrein um algengi og áhættuþætti langvinns nýrnasjúkdóms hjá einstaklingum á litíummeðferð sem unnin var af rannsóknarhópi á Landspítala og í Háskóla Íslands. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Gísla Gíslasonar læknis við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands undir handleiðslu Engilberts Sigurðssonar, geðlæknis og prófessors, Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis og Runólfs Pálssonar, nýrnalæknis og prófessors. Rannsóknin er mikilvægt lóð á vogarskálarnar til að auðvelda læknum og einstaklingum á litíummeðferð að sníða skömmtun lyfsins að þörfum hvers einstaklings til að lágmarka áhættuna á langtímaaukaverkunum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ótvírætt mikilvægi þess að stefna jafnan að lægstu þéttni sem skilar meðferðarárangri hjá hverjum og einum einstaklingi á litíummeðferð til að draga úr áhættu á þróun langvinns nýrnasjúkdóms. Í sama tölublaði fjalla tveir fræðimenn, annar nýrnalæknir og hinn geðlæknir, um niðurstöður rannsóknarinnar og um mikilvægi rannsóknarsamstarfs þvert á sérgreinar læknisfræðinnar í þágu sjúklinga.

Litíum nýtt fyrir einstaklinga með geðhvörf

Litíum hefur áratugum saman verið kjörlyf til jafnvægisstillingar hjá einstaklingum með geðhvörf auk þess sem það hefur lengi verið notað við meðferð þunglyndis sem svarar ekki nægilega vel þunglyndislyfjum. Í síðara tilvikinu má oftast komast af með lága skammta og getur blóðþéttni á bilinu 0,3-0,6 mmól/l nægt en meðferðarþéttnin þarf hins vegar oftast að vera 0,6-0,8 mmól/l við meðferð geðhvarfa, einstaka sinnum 0,8-1,0 mmól/l. Litíum er einnig eina lyfið sem dregur úr líkum á sjálfsvígum meðal einstaklinga með geðhvörf eða endurtekið þunglyndi.

Þrátt fyrir þetta hefur dregið úr notkun litíums bæði í Evrópu og Bandaríkjunum á tveimur síðustu áratugum. Ástæðan virðist annars vegar vera markaðssetning nýrra geðrofslyfja og jafnvægislyfja en ekkert þeirra býr þó yfir öllum þeim kostum sem litíum hefur. Hins vegar hefur langtíma áhætta á þróun langvinns nýrnasjúkdóms einnig haft talsverð áhrif. Því er afar mikilvægt að skilja hvernig hægt er að nýta kosti litíummeðferðar en reyna um leið að lágmarka langtímaáhættu á skertri nýrnastarfsemi.

Mörgum spurningum enn ósvarað um áhrif litíums á nýrnastarfsemi

Fyrri rannsóknir hafa sýnt allt að tvö- til þrefalda áhættu á langvinnum nýrnasjúkdómi sem virðist háð lengd litíummeðferðar. Erfitt hefur reynst að rannsaka til hlítar áhrif litíums og samspil þeirra við aðra áhættuþætti vegna þess hve hægfara hnignunin á nýrnastarfseminni er en hún kemur iðulega ekki fram fyrr en eftir mörg ár, stundum ekki fyrr en eftir tvo áratugi. Mörgum spurningum er því enn ósvarað um áhrif litíums á nýrnastarfsemi; áhrif aldurs og kyns, samspil við aðra áhættuþætti svo sem háþrýsting, sykursýki, sögu um bráðan nýrnaskaða auk áhrifa skömmtunar og blóðþéttni lyfsins.

Rannsóknin var afturskyggn gagnarannsókn sem náði til allra einstaklinga á litíummeðferð á Íslandi á árunum 2008 til 2017 sem áttu fyrirliggjandi mælingar á nýrnastarfsemi á þeim tíma. Til samanburðar var hópur einstaklinga sem leitað hafði þjónustu á göngudeild Geðþjónustu Landspítala vegna lyndisraskana á árunum 2014-2016. Aflað var upplýsinga um niðurstöður litíummælinga í blóði frá 1993 og niðurstöður blóð- og þvagrannsókna frá 2008-2017 sem voru nýttar til að meta þróun nýrnastarfsemi. Einnig voru nýttar upplýsingar um sjúkdóma sem geta haft áhrif á nýrnastarfsemi frá heilbrigðisstofnunum hér á landi til að fá sem nákvæmasta mynd af því hvernig samspili þeirra við aldur, kyn og litíummeðferð er háttað.

Alls voru um tvö þúsund einstaklingar í litíumhópnum og um tólf hundruð í viðmiðunarhópnum. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að áhættan á langvinnum nýrnasjúkdómi á stigi 3, 4 eða 5 er um tvöföld eftir að leiðrétt hefur verið fyrir öðrum þáttum. Í undirhópagreiningu þar sem skoðaðir voru eingöngu einstaklingar með meðalblóðþéttni litíums á bilinu 0,30 til 0.99 mmól/l komu fram greinileg áhrif litíumþéttni á áhættuna á langvinnum nýrnasjúkdómi og jukust áhrifin með hækkandi blóðþéttni. Þegar einstaklingar á litíum voru flokkaðir í þrjá hópa: 1) með meðallitíumþéttni á bilinu 0,30 til 0,59 mmól/l; 2) með meðalþéttni 0,60 til 0,79; og 3) með meðalþéttni 0,80 til 0,99 mmól/l, sem voru bornir saman við viðmiðunarhópinn, reyndist áhættan á nýrnasjúkdómi ekki vera aukin hjá hópnum með lægsta þéttnibil litíums. Áhættan var hins vegar þrefalt aukin hjá þeim sem vorum með meðalþéttni á bilinu 0,60 til 0,79 mmól/l og rúmlega fjórfalt aukin hjá hópnum með meðallitíumþéttni á bilinu 0,80 til 0,99 mmól/l.

Rannsóknin auðveldar læknum að skammta litíum

Rannsóknin er mikilvægt lóð á vogarskálarnar til að auðvelda læknum og einstaklingum á litíummeðferð að sníða skömmtun lyfsins að þörfum hvers einstaklings til að lágmarka áhættuna á langtíma aukaverkunum. Að auki er afar mikilvægt að allir þeir sem eru á litíummeðferð gangist undir reglubundnar mælingar á litíumþéttni og mat á nýrnastarfsemi og skjaldkirtilsstarfsemi að minnsta kosti árlega. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ótvírætt mikilvægi þess að stefna jafnan að lægstu þéttni sem skilar meðferðarárangri hjá hverjum og einum einstaklingi á litíummeðferð til að draga úr áhættu á þróun langvinns nýrnasjúkdóms.

Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Gísla Gíslasonar læknis viðHeilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands sem unnin er undir handleiðslu Engilberts Sigurðssonar, geðlæknis og prófessors, Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis og Runólfs Pálssonar, nýrnalæknis og prófessors. Doktorsverkefnið beinist að því að rannsaka aukaverkanir litíummeðferðar með áherslu á nýrna- og innkirtlaaukaverkanir og um leið bestu leiðir til að skammta litíum á sem öruggastan hátt. Á Íslandi búum við að góðu aðgengi að gögnum sem verða til við veitingu klínískrar þjónustu sem gera okkur kleift að gera rannsóknir af þessu tagi til að auka öryggi lyfjameðferðar.

Heimild: landspitali.is

Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Gísla Gíslasonar læknis við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.