Leiðandi tímariti í femínískum fræðum ritstýrt frá HÍ
Fræðimenn við Háskóla Íslands hafa tekið við ritstjórn tímaritsins NORU, Nordic Journal of Feminist and Gender Research. Markmið tímaritsins, sem er gefið út af Taylor og Francis, er að miðla norrænu sjónarhorni á alþjóðleg jafnréttis- og kynjafræði og að gera norrænar rannsóknir á sviðinu aðgengilegar og sýnilegar í alþjóðlegu samhengi. NORA, sem er með háan áhrifastuðul, er leiðandi í norrænum femínískum fræðum. Það er auk þess mikilvæg heimild um strauma og stefnur á fræðasviðinu sem og um samvinnu við önnur rannsóknasvið.
Í tímaritinu eru birtar nýjar rannsóknir af ólíkum fræðasviðum svo sem menntunarfræði, heilbrigðisvísinda, sagnfræði, lögfræði, bókmennta, heimspeki, stjórnmálafræði, trúarbragðafræði, félagsfræði og tækni- og raungreina. NORA er einnig vettvangur þverfræðilegra greina, afstöðugreina og ritdóma þar sem viðfangsefnin taka bæði til alþjóðlegra og sértækra norrænna viðfangsefna, aðferða og kenninga. Markmið NORU sem kemur út fjórum sinnum á ári er þannig að kortleggja breiddina og dýptina í norrænum jafnréttis- og kynjafræðum og stuðla að þverþjóðlegu og þverfaglegu samtali. Tímaritið er ætlað fræðimönnum af ólíkum sviðum og er tekið mið að því í umfjöllun um kenningar og aðferðir en efnið nýtist einnig þeim er starfa við stefumótun eða félags- og menningartengd verkefnum þar sem mikilvægt er að hafa innsýn inn í ólíkar birtingarmyndir mismununar og ójafnra valdatengsla.
Tímaritið fagnar þrjátíu ára afmæli sínu í ár en það hóf göngu sína árið 1993 og er Nóra aðalkvenpersónan í Dúkkuheimili Henrik Ibsens innblásturinn að nafni þess. Norðurlandaþjóðirnar skiptast á að fara með ritstjórn NORU og nú er það í höndum Íslendinga í fyrsta sinn. Ritstjórnarteymið er allt frá Háskóla Íslands, en það skipa Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Irma Erlingsdóttir. Brynja er dósent við Menntavísindasvið og þær Eyja Margrét og Irma eru prófessorar við Hugvísindasvið. Jafnframt er formaður stjórnar norræna tengslanetsins sem rekur tímaritið í fyrsta skipti Íslendingur, en það er Irma Erlingsdóttir.
Auk þess að gefa út tímaritið stendur netverkið fyrir stórum alþjóðlegum ráðstefnum, en það kom í hlut RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands að skipuleggja slíka ráðstefnu árið 2019. Ráðstefnan fór síðan fram í Noregi árið 2022 og verður næst haldin í Svíþjóð eftir tvö ár. Sterk staða tímaritsins í alþjóðlegu samhengi er til marks um áhuga á norrænum femínískum fræðum og jafnréttis – og kynjafræðum.