Leiðin út á vinnumarkað liggur í gegnum Atvinnudaga HÍ
Hvernig á að gera ferilskrá sem vekur athygli? Hvað felst í því að stýra eigin starfsferli í nútímasamfélagi? Hvaða tækifæri standa nemendum HÍ til boða í starfsþjálfun? Hvernig er hægt að nýta sér tungumálið til að auka möguleika sína og vekja á sér athygli í atvinnuleit? Þessum og fleiri spurningum verður svarað á Atvinnudögum sem fara fram í HÍ 30. janúar til 3. febrúar.
Að Atvinnudögum standa Nemendaráðgjöf HÍ, Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs og Tengslatorg HÍ en þeir hafa verið haldnir frá árinu 2015 í einhvers konar formi. „Atvinnudagar hafa þróast í þá átt að stúdentar eru farnir að gera ráð fyrir þeim á hverju vormisseri. Þeir hafa heitið ýmsum nöfnum en frá árinu 2019 hefur dagskráin borið nafnið Atvinnudagar og leiðarstef verið breytileg. Í ár er lögð áhersla á að varpa ljósi á það hvað þarf að gera og hafa þekkingu á til að vera fær um að stýra starfsferlinum og koma sér á framfæri á vinnumarkaði,“ segir Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi og verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ, sem borið hefur hitann og þungann af undirbúningi glæsilegrar dagskrár í ár.
Frábær leið til að undirbúa sig fyrir vinnumarkaðinn
„Þetta er fyrst og fremst frábær leið til þess að undirbúa stúdenta fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Ef maður hefur einhverjar spurningar um hvernig finna á leið sína að draumstarfi þá er tilvalið að mæta á viðburðina en þar er farið vel yfir það hvernig eigi að stýra sínum starfsferli. Það er frábært fólk sem kemur að vikunni sem er tilbúið að hjálpa stúdentum að komast nær sínu draumastarfi. Þetta skiptir máli því stúdentar gera sér oft ekki grein fyrir öllum þeim möguleikum sem eru til staðar og því hvet ég alla til þess að láta þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara,“ segir Birkir Örn Þorsteinsson, hagfræðinemi og formaður Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs, sem kemur að undirbúningi dagskrárinnar fyrir hönd stúdenta.
„Það liggur við að ég segi að það sé skylda að taka þátt í Atvinnudögum því að í þessari dagskrá gefst stúdentum tækifæri til að fá fræðslu um atvinnulífið og með hvaða hætti hægt er að koma sér á framfæri þegar vinnumarkaðurinn leitar eftir mannauðnum sem býr í stúdentum,“ bætir Jónína við.
Hún bendir jafnframt á að við séum stöðugt að læra og þjálfast í að stýra starfsferlinum. „Starfsferillinn spannar marga áratugi í lífi einstaklings, hann tekur breytingum bæði vegna utanaðkomandi aðstæðna og innri. Atvinnudagar skipta máli því þar er starfsfólk og stúdentar að taka höndum saman og bjóða upp á dagskrá sem er í senn fræðandi og skemmtileg. Að henni lokinni ættu stúdentar að hafa fleiri verkfæri í sinni kistu sem gerir þeim betur kleift að átta sig á þeim tækifærum sem bjóðast innan skólans til að efla starfshæfni og stýra starfsferlinum og þar með vera tilbúnari að stíga skrefið út á vinnumarkaðinn,“ segir hún.
„Það er mjög sniðugt fyrir nemendur sem eru að sækja um sumarstörf eða framtíðarstörf að kíkja á viðburðina sem eru í boði,“ skýtur Birkir inn í.
„Eitt stærsta verkefnið í lífinu er að skapa starfsferil sem endurspeglar áhugasvið okkar, gildi og viðhorf. Segja má að þetta sé verk í sífelldri mótun og þróun. Því er um að gera að tala þátt í dagskrá Atvinnudaga og ekki síður að nýta og njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa hjá Nemendaþjónustu HÍ,“ segja þau Birkir Örn Þorsteinsson og Jónína Kárdal.
Dagskrá alla vikuna
Dagskrá Atvinnudaga hefst mánudaginn 30. janúar kl. 12 á opnunarviðburði á Litla Torgi þar sem Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, flytur ávarp og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður með opnunarorð. Boðið verður upp á létt hádegissnarl á viðburðinum sem er öllum opinn.
Í framhaldinu rekur hver viðburðurinn annan, ýmist á staðnum eða í streymi, þar sem boðið verður upp á aðstoð við gerð ferilskrár, fjallað um hvað felist í því að stýra eigin starfsferli, starfsþróun og afdrif doktorsnema við HÍ, tækifæri til starfsþjálfunar, hvernig á að vera öflugur leiðtogi og liðsmaður í teymi og hvernig nota má tungumálið til að auka möguleika og vekja á sér athygli í atvinnuleit. „Við í Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs sláum svo botninn í dagskrána með léttri Kahoot-spurningkeppni í streymi á föstudeginum þar sem sigurvegarinn fær vegleg verðlaun,“ segir Birkir.
Bragi Valdimar fjallar um tunguna og tengslin
Aðspurð fyrir hvaða viðburðum þau séu spenntust nefnir Birkir viðburðinn Tengsl og tunga en þar mun Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður, atvinnurekandi, hugmynda- og orðasmiður fjalla á skemmtilegan hátt um mikilvægi þess að koma vel fyrir sig orði við tengslamyndun. Sá viðburður er í streymi. Undir það tekur Jónína: „Það er alveg frábært að fá hann!“ segir hún og bætir við að allir viðburðir hafi sinn sjarma. „Ég er mjög spennt fyrir erindi ráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, og fyrir kynningu Maríu Dóru Björnsdóttur, deildarstjóra Nemendaráðgjafar HÍ, á því hvað felist í því að stýra eigin starfsferli í nútímasamfélagi. Ég verð einnig að minnast dagskrá sem varpar ljósi á starfsþróun doktorsnema sem er mjög öflug. Það er Miðstöð framhaldsnáms sem skipuleggur þessa viðburði og þeir eru bæði fræðandi fyrir alla og svo sértækir,“ segir hún.
Annað draumastarf að vera ljósmóðir
En skyldu þau eiga sér einhver draumastörf? „Já, mig langar mjög mikið að vinna þvert á mismunandi geira. Mig langar ekki að festast í einu starfi að gera það nákvæmlega sama aftur og aftur til æviloka. Það skiptir mig miklu máli að hafa áhuga á því sem ég geri en til þess að komast í slíka stöðu þarf að hafa mikið fyrir því,“ segir Birkir og ljóst er af þessum orðum að hann áttar sig vel á mikilvægi þess að stjórna starfsferlinum.
„Ég er menntaður náms- og starfsráðgjafi og tel að ég sé alveg á réttri hillu, nýt mín mjög vel í starfi og vinn að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum, er í sannkölluðu draumastarfi,“ segir Jónína en bætir við: „Ég held að maður hætti aldrei að láta sig dreyma og máta sig við hin ýmsu störf og starfsheiti. Mig hefur til dæmis alltaf langað að vera ljósmóðir og geng enn þá með það í maganum. Ég hef reyndar komist að þeirri niðurstöðu að það er margt sameiginlegt með þessum tveimur störfum, að aðstoða einstaklinga, leita lausna í krefjandi aðstæðum, sýna samhygð og beita fræðilegri þekkingu. Það er bæði magnað og skemmtilegt að taka á móti einstaklingum sem eru að huga að sínu náms- og starfsvali. Sem náms- og starfsráðgjafi er ég að aðstoða fólk við að láta hugmyndir og drauma um framtíð í námi og starfi rætast. Í staðinn fyrir barnið kemur framtíðarsýnin.“
Þau Jónína og Birkir undirstrika að langflestir viðburðir á Atvinnudögum eru opnir öllum og að fræðsla og kynningar séu þess eðlis að þær höfða til allra, hvar sem þau eru stödd á starfsferli sínum. „Eitt stærsta verkefnið í lífinu er að skapa starfsferil sem endurspeglar áhugasvið okkar, gildi og viðhorf. Segja má að þetta sé verk í sífelldri mótun og þróun. Því er um að gera að tala þátt í dagskrá Atvinnudaga og ekki síður að nýta og njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa hjá Nemendaþjónustu HÍ.“