Leita leiða til að fjölga læknanemum á landinu
„Fyrirsjáanleg mannekla í læknastétt er vaxandi vandamál og sama er að segja um annað heilbrigðisstarfsfólk. Árangur í lækna- og heilbrigðisvísindum í gegnum árin hefur gert það verkum að lífaldur eykst sem kallar á aukna aðstoð heilbrigðiskerfisins við þegna samfélagsins,“ segir Þórarinn Guðjónsson, prófessor og forseti Læknadeildar. Deildin vinnur nú að því ásamt fulltrúum Landspítala og stjórnvöldum að fjölga þeim sem tekin eru inn í læknanám á hverju ári.
Læknadeild hefur um langt árabil staðið fyrir inntökuprófum fyrir fólk sem hyggur á nám í læknisfræði. Undanfarin ár hafa í kringum 300 manns þreytt inntökuprófin og þau 60 sem standa sig best eru tekin inn í námið. Fjöldinn miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. „Innviðir heilbrigðiskerfisins eru þannig að ekki er hægt að bæta við nemendum við núverandi aðstæður,“ segir Þórarinn.
Aukin áhersla á færnibúðir og hermisetur og rafræna kennslu
Í ljósi þess að þjóðin er að eldast og að þegar hafa borist fréttir af skorti á læknum hér á landi hafa Háskóli Íslands og Landspítali í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið unnið að því í sumar og haust að greina hvernig má fjölga læknanemum. „Í þessu sambandi er verið horfa bæði til praktískra hluta eins og aðstöðu en ekki síður til nýrra kennsluhátta svo sem aukna áherslu á færnibúðir og hermisetur, rafræna kennsluhætti og aukinnar samvinnu við heilbrigðisstofnanir á öllu landinu,“ segir Þórarinn sem leiðir þessa vinnu fyrir hönd HÍ ásamt Sædísi Sævardóttur, varadeildarforseta Læknadeildar.
Á vef stjórnarráðsins er bent á að ýmiss konar færnibúðir nýtist ekki einungis nemendum á háskólastigi heldur einnig starfsfólki innan heilbrigðisstofnana og nemum á framhaldsskólastigi, svo sem í sjúkraliða- og félagsliðanámi um land allt. „Færnibúðir hafa verið nýttar hér á landi með góðum árangri en með aukinni áherslu á þær og fjárfestingu í betri tækjabúnaði og þjálfun geta þær skipt sköpum í því að standa undir þjálfun heilbrigðisstarfsfólks til framtíðar,“ segir á vefnum.
Aðspurður segir Þórarinn að innan Læknadeildar hafi tveir hópar verið skipaðir vegna greiningarvinnunnar, annars vegar til að skoða grunnnám í læknisfræði og hins vegar klínískt nám. „Allir akademískir starfsmenn Læknadeildar munu koma að þessu og málið er rætt á deildar- og deildarráðsfundum.“
Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er ekki séríslenskt fyrirbrigði því víða um heim glíma þjóðir við sama vanda og samkeppni um heilbrigðisstarfsfólk á alþjóðavísu er gríðarhörð. Greiningarvinnu vegna vandans er ekki lokið að sögn Þórarins en reiknað er með að deildin, í samstarfi við Landspítala, skili af sér minnisblaði fyrir áramót þar sem vonandi verði hægt að gera skýra grein fyrir hvort og hvernig það sé raunhæft að halda áfram með þessa vinnu. „Við skynjum mikla jákvæðni hjá öllum sem við tölum við í þeirri upplýsingasöfnun sem stendur yfir,“ segir Þórarinn enn fremur um vinnuna.
„Samfélagið í heild þarf að taka þessa umræðu og fólk þarf að gera sér grein fyrir að mannafla- og fjárþörf heilbrigðiskerfisins mun halda áfram að aukast í takt við framfarir í læknavísindum, en það má ekki gleyma því að aukin heilsa og lífslengd skilar sér einnig margfalt til baka til samfélagsins og er því þjóðhagslega hagkvæmt að hlúa vel að heilbrigðiskerfinu og menntun heilbrigðisstétta,“ segir Þórarinn Guðjónsson, prófessor og forseti Læknadeildar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Þróun sérnáms á Landspítala virkasta leiðin til að fjölga læknum á Íslandi
Landspítalinn er helsti samstarfsaðili HÍ í heilbrigðisvísindum og spítalinn er í senn aðalþjálfunar- og framtíðarstarfsvettvangur þeirra sem sækja sér menntun í heilbrigðisgreinum hér á landi. En hvaða máli skiptir fyrir Landspítala að geta fjölgað þeim læknanemum sem stunda nám á spítalanum?
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir manneklu í röðum lækna vera vanda sem fyrirsjáanlegt sé að muni aukast verulega í framtíðinni verði ekki brugðist við með afgerandi hætti. Ljóst er að nálgast þurfi þetta viðfangsefni á margþættan máta eigi viðunandi árangur að nást. „Þótt áhrifa þess á manneklu gæti ekki nærri strax er ekki seinna vænna að leita leiða til að fjölga nemendum í læknisfræði. Við einfaldlega verðum að mennta fleiri lækna til að halda í við vaxandi mönnunarþörf. Við vitum að það er erfitt að koma auknum fjölda nemenda í klínísku námi fyrir á Landspítala að óbreyttu. Í stað þess að afgreiða málið með þeim hætti verðum að leita lausna sem mögulega gætu beinst að breytingum á námskrá eða kennslufyrirkomulagi,“ segir Runólfur.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hann bendir á að hafa verði í huga að aðrar þjóðir standi frammi fyrir sama vanda og því sé full ástæða til að fylgjast með framvindu mála hjá þeim. „Víða er þróun og stóraukin nýting hermikennslu mjög áberandi. Það er leið sem ég held að við verðum að fara og því er mikilvægt að huga að myndarlegri uppbyggingu hermisetra hið fyrsta. Við verðum jafnframt að tryggja nægt framboð á kennurum til að veita auknum fjölda nemenda fullnægjandi leiðsögn. Takist að fjölga læknanemum er mikilvægt að fjölga jafnframt sérnámsstöðum á Landspítala. Þróun sérnáms á spítalanum á undanförnum árum hefur verið mjög athyglisverð og er vafalítið okkar virkasta leið til að fjölga læknum við störf á Íslandi. Við værum í mun verri stöðu í dag ef uppbygging sérnáms hefði ekki heppnast jafnvel og raun ber vitni,“ segir Runólfur enn fremur.
Til að bregðast við manneklu sem ríkir um þessar mundir sé ekki síður nauðsynlegt að halda læknum í starfi á Landspítala og að laða fleiri lækna til starfa á spítalanum, að sögn Runólfs. „Til að það sé unnt þarf að bæta vinnuaumhverfi, m.a. aðstöðu til akademískra starfa. Þótt æ fleiri læknar stundi nú sérnám á Íslandi er óhjákvæmilegt að stór hluti þessa náms fari fram erlendis. Við verðum að vinna markvisst að því að fá þessa lækna heim að námi loknu. Í því skyni verðum við að skapa aðlaðandi vinnuaðstæður því við erum í mikilli samkeppni um lækna á alþjóðavettvangi,“ bætir hann við.
Þörf á að útskrifa um 90 lækna árlega
En hvað skyldi þurfa að mennta marga lækna árlega þannig að íslenskt heilbrigðiskerfi sé í stakk búið til þess að takast á við fjölgun og breytta samsetningu þjóðarinnar? „Við í Læknadeild höfum fengið þær upplýsingar frá ráðuneytum, m.a. byggt á mannaflaspá Læknafélags Íslands, að deildin þurfi að útskrifa um 90 lækna árlega til þess að anna eftirspurn,“ segir Þórarinn.
Ljóst er að verkefni sem þetta verður ekki leyst á einni nóttu og þar hafa fleiri en þau sem koma að menntun og störfum heilbrigðisstarfsfólks hlutverki að gegna. „Samfélagið í heild þarf að taka þessa umræðu og fólk þarf að gera sér grein fyrir að mannafla- og fjárþörf heilbrigðiskerfisins mun halda áfram að aukast í takt við framfarir í læknavísindum, en það má ekki gleyma því að aukin heilsa og lífslengd skilar sér einnig margfalt til baka til samfélagsins og er því þjóðhagslega hagkvæmt að hlúa vel að heilbrigðiskerfinu og menntun heilbrigðisstétta,“ segir Þórarinn að endingu.