Lesley Ann Page sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild
Lesley Ann Page, ljósmóðir og prófessor við Thames Valley University í Bretland, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðarsal skólans föstudaginn 15. október. Nafnbótina fær hún m.a. fyrir þátt sinn í flutningi ljósmóðurnáms í Háskóla Íslands.
Lesley Ann Page á afar farsælan feril að baki en hún hefur alla tíð sem ljósmóðir lagt mikið af mörkum við klíníska og akademíska uppbyggingu ljósmóðurfræðinnar á alþjóðavísu. Hún er mikilsvirtur leiðtogi í ljósmæðrasamfélaginu og hefur sinnt stjórnunarstörfum á Bretlandi, leitt kennslu, skrifað kennslubækur, stundað rannsóknir á sviði ljósmóðurfræða og birt fjölda fræðigreina, skýrslur og kafla í grundvallaritum á fræðasviðinu. Áherslur hennar í rannsóknum beinast t.d. að þróun og skipulagi þjónustu í barneignaferlinu, svo sem samfelldri ljósmæðraþjónustu. Breytingar á þjónustu við barnshafandi konur hér á landi, eins og MFS-einingin svokallaða og Hreiðrið á Landspítala, byggðu m.a. á rannsóknum hennar.
Lesley lauk hjúkrunar- og ljósmóðurprófi á árabilinu 1965-66 og í kjölfarið BA-gráðu og meistaragráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún lauk svo doktorsprófi frá University of Technology í Sydney í Ástralíu árið 2004. Lesley hlaut prófessorsstöðu árið 1994 við Thames Valley University í London og er fyrsti prófessor í ljósmóðurfræði í Bretlandi.
Samhliða akademísku starfi hefur hún gengt ljósmóðurstörfum, m.a. á fæðingardeildum háskólasjúkrahúsa í London og á Oxford Radcliff sjúkrahúsinu. Lesley bjó enn fremur og starfaði í Kanada í 13 ár þar sem hún átti þátt í að efla ljósmóðurfræði sem háskólagrein og að ljósmæður gætu starfað innan og utan sjúkrahúsa þar í landi. Hún hefur verið vinsæll fyrirlesari víða um heim og verið gestaprófessor í nokkrum háskólum m.a. í Japan, á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og við Háskóla Íslands. Hún hefur setið í fjölda nefnda og ráða sem hafa stefnumótandi áhrif á barneignaþjónustu í Bretlandi og víðar.
Lesley var formaður breska ljósmæðrafélagsins (Royal College of Midwives á árunum 2012-2017 og hefur hlotið margar viðurkenningar á starfsferli sínum, m.a. æðstu orðu breska heimsveldisins fyrir ljósmóðurstörf árið 2014 (Commander of the British Empire). Hún hefur verið heiðursfélagi í Breska ljósmæðrafélaginu frá 2004 og félagi í Bresku læknasamtökunum frá 2002.
Það eru fyrst og fremst tveir þættir í störfum Lesley Ann Page sem styðja þá ákvörðun að veita henni heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands. Annars vegar er það aðkoma hennar sem gestaprófessor að þróun námsskrár í ljósmóðurfræði þegar nám í námið var flutt til Háskóla Íslands og hins vegar óumdeilt framlag hennar til rannsókna í ljósmóðurfræði á alþjóðavísu en það hefur m.a. verið hvati að uppbyggingu og þróun rannsókna í ljósmóðurfræði hér á landi.