Skip to main content
15. nóvember 2023

Lokaverkefnið í MBA-námi sjálfbærnistefna fyrir Öryggismiðstöðina

Lokaverkefnið í MBA-námi sjálfbærnistefna fyrir Öryggismiðstöðina - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjallað er um lokaverkefni Auðar Lilju Davíðsdóttur í MBA-námi hennar við Háskóla Íslands á vef AMBA, sem er alþjóðlegur vottunaraðili MBA náms (Association of MBA's), en í verkefninu innleiddi hún sjálfbærniáætlun á vinnustað sínum, Öryggismiðstöðinni. 

Auður Lilja stundaði MBA-nám við Háskóla Íslands á árunum 2019-2021 og í viðtalinu við hana á vef AMBA, sem birtist undir liðnum „Sögur af velgengni MBA-nema“, ræðir Auður Lilja reynsluna af náminu og hvernig hún hefur nýst henni í störfum sem markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar. 

Auður Lilja segist hafa valið MBA-námið við Háskóla Íslands þar sem mælt hafi verið með því en auk þess sé það í góðum tengslum við atvinnulífið og kennararnir vel þekktir og virtir. „Þetta var því frekar auðvelt val,“ segir hún. 

Auður Lilja segist hafa styrkt sig á mörgum sviðum í náminu, þar á meðal í greiningu gagna, og þá hafi námið styrkt hana sem stjórnanda og skapað henni fleiri tækifæri hjá Öryggismiðstöðinni. Eitt af því hafi verið að innleiða sjálfbærnistefnu fyrir fyrirtækið en lokaverkefni hennar í MBA-náminu hafi verið um bestu leiðirnar til þess. „Þetta nýttist fyrirtækinu vel og gerði okkur kleift að bregðast við þeim lagabreytingum sem voru yfirvofandi í því fólst að við þurftum að veita upplýsingar, grípa til aðgerða og setja fram mælikvarða í sjálfbærnimálum. Ef ekki hefði verið fyrir þetta framlag mitt hefði fyrirtækið þurft að leita utanaðkomandi aðstoðar við þetta verkefni með tilheyrandi kostnaði. Ég er afar stolt af því sem við höfum áorkað t.d. á sviði umhverfismála á skömmum tíma í kjölfar þessarar vinnu.“

Viðtalið við Auði Lilju í heild sinni má lesa hér

Nánar um MBA-nám við Háskóla Íslands
 

Auður Lilja Davíðsdóttir