Metfjöldi brautskráður frá HÍ á laugardag
Háskóli Íslands brautskráir 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi laugardaginn 25. júní og hefur aldrei áður brautskráð jafnmarga í einu. Brautskráningarathafnir verða tvær og fara fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal (nýju Laugardalshöllinni). Eftir tveggja ára hlé geta gestir nú verið viðstaddir athafnirnar og samfagnað með brautskráningarkandídötunum en bein útsending verður jafnframt frá báðum athöfnum fyrir áhugasöm.
Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 653 frá Félagsvísindasviði og 311 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Bein útsending frá fyrri brautskráningarathöfn (smelltu á örvarnar í horni myndarinnar til að stækka útsendinguna)
Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 578 frá Heilbrigðisvísindasviði, 279 frá Hugvísindasviði og 773 frá Menntavísindasviði.
Bein útsending frá seinni brautskráningarathöfn (smelltu á örvarnar í horni myndarinnar til að stækka útsendinguna)
Alls munu því 2.594 kandídatar útskrifast frá Háskóla Íslands á laugardag en til samanburðar voru þeir 2.548 í fyrra sem var þá langmesti fjöldi sem skólinn hefur brautskráð. Í hópi brautskráningarkandídata nú eru fyrstu nemendurnir sem ljúka meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu og þroskaþjálfafræði til starfsréttinda.
Líkt og áður mun Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytja ávarp við athafnirnar og þá munu Sara Þöll Finnbogadóttir, sem útskrifast með BA-gráðu í stjórnmálafræði, og Ingunn Rós Kristjánsdóttir, sem brautskráist með BA-próf í sálfræði, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata á athöfnunum tveimur. Hljómsveitin Systur, sem skipuð er þeim Sigríði, Elísabetu og Elínu Eyþórsdætrum, stígur á stokk og skemmtir gestum á athöfnunum tveimur en þær voru eins og kunnugt er fulltrúar Íslands í Eurovision-söngvakeppninni á Ítalíu í síðasta mánuði.
Háskóli Íslands brautskráði 455 kandídata í febrúar síðastliðnum og því hafa alls 3.049 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.
Kandídatar hafa fengið sent bréf með nánari upplýsingum um fyrirkomulag athafnanna en starfsfólk Háskólans verður enn fremur á staðnum og leiðbeinir kandídötum um sætaskipan.
Leiðbeiningar fyrir streymi og svör við algengum spurningum
1. Get ég horft á viðburðinn í snjallsímanum mínum eða spjaldtölvu?
- Þú getur horft á streymið í vafra í snjallsíma eða spjaldtölvu.
2. Get ég notað Chromecast eða Airplay?
- Já, það birtist lítill “Cast” hnappur neðst í spilaranum sem þú smellir á til að senda strauminn í sjónvarpið þitt. Skoðaðu leiðbeiningarnar sem fylgdu þínu tæki.
3. Verður viðburðurinn aðgengilegur eftir að honum lýkur?
- Hægt verður að horfa á viðburðinn aftur að honum loknum á þessari vefslóð og eða á YouTube rás Háskóla Íslands.
4. Get ég horft á viðburðinn í gegnum Apple TV?
- Þú getur notað tækni á borð við AirPlay til að tengja t.d. síma eða tölvu við Apple TV.
5. Streymið mitt höktir, hvað er til ráða?
- Prófaðu að nota annað tæki, t.d. snjallsíma. - Notaður Chrome vafrann eða Safari. - Skiptu yfir í 4G, það virkar oft betur en WiFi, þó að nettenging sé hröð.