Skip to main content
22. júní 2022

Metfjöldi brautskráður hjá Endurmenntun HÍ

Metfjöldi brautskráður hjá Endurmenntun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Metfjöldi kandídata, eða 205, brautskráðist frá Endurmenntun HÍ við hátíðalega athöfn í Háskólabíói þann 16. júní sl. Brautskráð var af fimm námsbrautum og úr Fjölskyldumeðferð brautskráðust 34, úr Jákvæðri sálfræði 37, úr Leiðsögunámi 14, úr Löggildingu til fasteigna- og skipasala 92 og 28 úr Sálgæslu.

Athöfnin var ákaflega hátíðleg en eftir tvö ár af samkomutakmörkunum gátu nemendur loksins boðið aðstandendum að sitja með sér og fylgjast með athöfninni í salnum. Halla Jónsdóttir endurmenntunarstjóri stýrði athöfninni og í ávarpi sínu fjallaði hún m.a. um vaxandi mikilvægi símenntunar í hringiðu breytinga á atvinnumarkaði, tæknivæðinga og áherslu á nýsköpun og sjálfbærni. Slíkar aðstæður kölluðu á hraða þróun hæfni og þekkingar. Markaður símenntunar hefði líklega aldrei verið jafn blómlegur hér á landi og þar væri Endurmenntun í fararbroddi með sterka tengingu við Háskóla Íslands. Halla talaði réttilega um þær jákvæðu tilfinningar sem fylgja áfanga sem þessum og hvatti kandidatanna til að nýta sér stoltið og gleðina til að taka á móti nýjum tækifærum eftir námið.  

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flutti ávarp og ræddi um hversu miklu hlutverki sí- og endurmenntun gegnir í samfélaginu. Endurmenntun tæki hlutverk sitt alvarlega og væri leiðandi afl á símenntunarmarkaði og legði metnað í að halda því forskoti með úrvali náms sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Það þyrfti kraft og þor til að hella sér í nám á fullorðinsaldri þegar fólk væri bæði komið með fjölskyldu og í fulla vinnu en að krefjandi námi styrkti okkur sem manneskjur og byggi okkur undirhvers konar áskoranir í kjölfarið. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpaði kandídatanna og ræddi m.a. um breytta tíma í dag þegar áhugi fólks er síbreytilegur og spurningin „hvað ætlar þú að gera þegar þú verður stór?“ er orðin marklaus í hafsjó möguleika sem fólki býðst á atvinnumarkaðnum. Við þyrftum ekki að ákveða eina leið heldur lægi vegurinn til margra átta og hægt væri að fara fram og til baka á lífsleiðinni eins og okkur sýndist. 

Að lokum ávarpaði Ingibjörg Valgeirsdóttir salinn en hún var sjálf að útskrifast úr Jákvæðri sálfræði. Hún sagðist finna fyrir rafmagnaðri orku í salnum meðal kandídatanna. Þeir kæmu úr mörgum mismunandi áttum en sameinuðust í ákafri forvitni og fróðleiksfýsni sem væri þeirra drifkraftur í gegnum námið. Ingibjörg þakkaði tækniframförum fyrir að gera fjarkennslu möguleika á meðan Covid-bylgjurnar gengu yfir en það sem stæði upp úr eftir námið væru tengslin sem kandídatar hefðu myndað sín á milli en þau myndi fylgja þeim um ókomna framtíð. 

Tónlistarkonan Lay Low flutti hugljúfa tónlist á milli ávarpa og gladdi salinn með sinni útgáfu af Eurovision laginu sínu Með hækkandi sól. 

Eftir afhendingu skírteina fóru kandídatarnir í hópmyndatökur og gæddu sér síðan á veitingum áður en þeir héldu í frekari veisluhöld.

Háskóli Íslands óskar öllum brautskráningarkandídötum frá Endurmenntun HÍ öllum innilega til hamingju með þennan frábæra áfanga og vonar að þeir njóti sumarsins.   
 

Freá Háskólabíói