Mikil aðsókn að HÍ-AWE frumkvöðlahraðlinum fyrir konur
Háskóla Íslands bárust tæplega 70 umsóknir í frumkvöðlahraðalinn HÍ-AWE fyrir konur sem nú er haldinn í þriðja sinn. Valnefnd átti við ramman reip að draga að velja úr umsóknum en aðstandendur 25 viðskiptahugmynda voru valdar til þátttöku í hraðlinum og hefja í dag vegferð sem miðar að því að þróa hugmyndirnar enn frekar undir leiðsögn reynslumikils hóps kvenna úr íslensku atvinnulífi. Hugmyndirnar voru af ýmsum toga, á sviði hugbúnaðar, menntamála og þjónustu við fötluð börn, rafbóka, sjálfbærni, matvælaþróunar, ferðaþjónustu og viðbótarveruleika svo einhver dæmi séu nefnd.
Auglýst var eftir þátttakendum í upphafi árs og bárust flestar umsóknir frá konum á höfuðborgarsvæðinu en einnig bárust 18 umsóknir frá konum af landsbyggðinni eða um 27%. Lögð var sérstök áhersla á að virkja konur af erlendum uppruna á Íslandi og er ánægjulegt að segja frá því að sú viðleitni skilaði sér en tæplega 40% umsókna voru frá konum af erlendum uppruna eða með tvöfalt ríkisfang.
Markmið AWE-hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þátttakendur verða hluti af náms- og þekkingarsamfélagi þar sem þær njóta handleiðslu reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við uppbyggingu fyrirtækja, mynda ný tengsl og efla starfsþróun og starfshæfni.
Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, verða mentorar í hraðlinum en þær búa að mikilli reynslu innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þá mun öflugur og reyndur hópur sérfræðinga úr háskólasamfélaginu, atvinnulífi og nýsköpunargeiranum á Íslandi koma að fræðslu og kennslu í hraðlinum. Þátttakendur sækja einnig netnámskeiðið Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona.
Nýsköpunarhraðallinn er haldinn undir merkjum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við Sendiráð bandaríkjanna á Íslandi. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna. AWE-verkefnið er í boði í yfir 80 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda en Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í því.