Skip to main content
13. nóvember 2023

Nærri 120 milljónir til rannsókna er tengjast taugastjórnun gervilima

Nærri 120 milljónir til rannsókna er tengjast taugastjórnun gervilima - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír styrkir til rannsókna, sem allar tengjast taugastjórnun gervilima, hafa verið veittir úr Rannsóknarsjóði Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands. Samanlögð upphæð styrkjanna er 117 milljónir króna en þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. 

Stoðtækjafyrirtækin Össur hf. og Ottobock tóku höndum saman fyrir nokkrum árum og settu sjóðinn á fót við Háskóla Íslands. Honum er ætlað að styðja vísindarannsóknir og frumkvöðlaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á síðasta ári og alls bárust níu umsóknir. Stjórn sjóðsins ákvað á endanum að styrkja þrjú verkefni, samtals að upphæð 850.000 bandaríkjadala sem samsvarar um 117 milljónum króna. 

Dr. Matija Strbac, Tecnalia Serbia Ltd., hlýtur styrk til verkefnisins „SockEET - Smart liner for high resOlution Control and feedbacK based on Embedded Electrodes“. Rannsóknir hans og samstarfsfólks beinast að því að bæta búnað sem miðlar upplýsingum milli gervilims og notanda. Til er ný tækni til að framleiða virkan búnað úr textíl sem er í senn teygjanlegur og andar vel og býr yfir fjölda rafskauta til að skrá upplýsingar og örva húðina. Hún getur þar með aukið verulega upplýsingaflæði. Strbac og teymi hans eru brautryðjendur í þessari tækni og fyrstu niðurstöður rannsókna- og nýsköpunarverkefna þeirra lofa góðu. Hins vegar á enn eftir að prófa ávinning aftækninni í klínísku umhverfi. Í verkefninu sem fær styrk er ætlunin að búa til frumgerðir af tækninni svo hægt verði að stýra með mikilli bandvídd og veita endurgjöf og prófa búnaðinn bæði utan við og í hulsu. Í síðarnefnda tilvikinu verður notandi með gervilim með búnað sem gerir honum kleift að sinna ýmsum verkum. Ætlunin er því í senn að prófa virkni, endingu og styrk búnaðarins.

Herman van den Kooij, prófessor við Tækniháskólann í Delft í Hollandi, hlýtur styrk fyrir verkefnið „Stýring aflknúins ökklagervilims, þar sem beitt er líkönum tauga- og stoðkerfis og veitt er endurgjöf skynjunar (PERSONIFY)“. Ökklaliðir gegna lykilhlutverki í hreyfingu, bæði með tilliti til þess að knýja líkamann áfram, stýra jafnvægi og laga líkamann að mismunandi undirlagi. Með svokallaðri viljastýringu aflknúins ökklagervilims með vöðvavirkni má mögulega endurheimta þessa virkni í fæti eftir aflimun. Van den Kooij og samstarfsfólk hefur unnið að verkefni sem nefnist Simbionics, en þar hefur verið þróað viðmót milli manns og vélar (HMI) þar sem sérsniðið líkan af taugastoðkerfi heila útlimsins er notað til að líkja eftir taugaaflfræði útlimsins sem vantar í sýndarveruleika. Það ástand er svo endurskapað með gervilimnum. Styrkurinn verður nýttur til að þróa frekar þessa tækni, m.a. breyta vél- og hugbúnaði svo hægt verði að gera tilraunir utan rannsóknarstofu, t.d. í samstarfi við einstaklinga sem hafa misst fót við sköflung. Rannsóknirnar taka bæði til gervilima sem festir eru með hulsu og beint í bein.

Kristín Briem, prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til verkefnisins „Gerviganglimur með viljastýringu og endurgjöf skynupplýsinga“. Meginmarkmið þess er að hanna, smíða og prófa gervifót og -hné fyrir einstaklinga sem misst hafa fótlegg ofan við hné, þar sem viljastýringu er beitt með vöðvarafboðum og endurgjöf skynupplýsinga er veitt. Þannig verður búnaðurinn gæddur mikilvægum eiginleikum til að notandinn geti aðlagað hreyfanleika gervihnés og -fótar fyrir ýmis verkefni og aðstæður. Mikilvægur þáttur verkefnisins er þverfræðileg nálgun og notendastýrð þróun. Einstaklingsmiðaðar aðferðir við endurgjöf og -hæfingu auka líkur á að notandinn geti notað og þjálfað tækið til að öðlast sem besta athafnagetu, aukið jafnvægi og öryggi, og þar með heilsutengd lífsgæði til lengri tíma litið. Til þess að ná því markmiði þarf að greina og meta þarfir notenda fyrir búnaðinn og óskir þeirra þegar kemur að viljastýringu og endurgjöf skynupplýsinga. 

Nánar um sjóðinn

Markmið Rannsóknarsjóðs Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands er að fjármagna vísindarannsóknir og frumkvöðlaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Sjóðurinn var stofnsettur við Háskóla Íslands með fjárframlögum frá Össuri og Ottobock sem eru tveir helstu frumkvöðlar heims á sviði gervilima og stoðbúnaðar. Sjóðurinn er alþjóðlegur samkeppnisjóður og er opinn bæði vísindamönnum og nemendum sem stunda rannsóknir við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki um víða veröld.

Össur hf. var stofnað á Íslandi árið 1971 og hefur höfuðstöðvar í Reykjavík. Ottobock var stofnað í Þýskalandi árið 1919 og hefur höfuðstöðvar í Duderstadt. Með stofnun sjóðsins vilja fyrirtækin efla þróun á hágæða tæknibúnaði sem eykur hreyfanleika og lífsgæði einstaklinga.

Stjórn sjóðsins skipa Þorvaldur Ingvarsson, fulltrúi Háskóla Íslands og formaður stjórnar, Ebba Þóra Hvannberg, fulltrúi Háskóla Íslands, Hildur Einarsdóttir, fulltrúi Össurar hf., Andreas Hahn, fulltrúi Ottobock, og Rögnvaldur Sæmundsson, sem er varamaður í stjórn.

Hluti aðstandenda verkefnisins „Gerviganglimur með viljastýringu og endurgjöf skynupplýsinga“ ásamt rektor HÍ og formanni stjórnar sjóðsins við úthlutun styrkja á dögunum. Frá vinstri:; Þorvaldur Ingvarsson, formaður stjórnar Rannsóknarsjóðs Össurar og Ottobock, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Kristín Briem, prófessor í sjúkraþjálfun, Atli Örn Sverrisson, þróunarverkfræðingur hjá Össuri, og Sigurður Brynólfsson, prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson