Skip to main content
27. október 2023

Nærri 250 tóku við brautskráningarskírteini frá HÍ

Nærri 250 tóku við brautskráningarskírteini frá HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands brautskráði í dag kandídata í þriðja sinn á árinu og að þessu sinni útskrifuðust 248 kandídatar úr grunn- og framhaldsnámi. Engin formleg brautskráningarathöfn fór fram frekar en undanfarin ár í október en í staðinn bauðst brautskráningarkandídötum að sækja prófskírteini sitt í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ í dag. Stríður straumur prúðbúinna kandídata var í Aðalbyggingu í dag enda er útskrift sannarlega mikilvægur áfangi og tilefni til að fagna góðu verki með sínum nánustu.

Háskóli Íslands brautskráði 505 kandídata á athöfn í Háskólabíói í febrúar síðastliðnum og þá tóku 2.832 kandídatar á móti skírteinum sínum í Laugardalshöll í sumar. Þetta þýðir að skólinn hefur samanlagt brautskráð 3.585 kandídata á árinu 2023 sem jafngildir hátt í 1% þjóðarinnar, en aldrei hafa jafnmargir útskrifast frá skólanum á einu ári.

Háskóli Íslands sendir nýbrautskráðum kandídötum innilegustu hamingjuóskir með áfangann og óskar þeim alls hins besta í þeim verkefnum sem nú taka við.

kandídat og fjölskylda