Skip to main content
12. desember 2024

Námskeið um Vigdísi hjá Endurmenntun HÍ

Námskeið um Vigdísi hjá Endurmenntun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þáttaröðin Vigdís fer í loftið á RÚV á nýársdag, 1. janúar. Í janúar hefst einnig námskeiðið Vigdís forseti - upphaf, mótun, áhrif hjá Endurmenntun HÍ. Það er haldið í samstarfi við Loftskeytastöðina, þar sem fram fer sýning helguð ævi og áhrifum Vigdísar, Ljáðu mér vængi.

Í kynningu frá framleiðendum sjónvarpsþáttanna segir: „Í ríkjandi karlaveldi ákveður einstæð móðir að bjóða sig fram til forseta Íslands. Leið Vigdísar að þessari ákvörðun er þroskasaga stúlku sem gefst aldrei upp sama hvað á dynur.  Það vakti heldur betur heimsathygli árið 1980 þegar Vigdís var kjörin forseti Íslands enda varð hún með því fyrsta konan í heiminum sem kjörin var þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum. Nína Dögg Filippusdóttir fer með aðalhlutverkið en Elín Hall leikur Vigdísi á yngri árum.“

plakat

Kynningarveggspjald fyrir þættina.

Á þessu vandaða námskeiði Vigdís forseti - upphaf, mótun, áhrif verður fjallað um rætur Vigdísar, uppruna hennar og bakgrunn - sem og framboðið, árin á forsetastóli og árin eftir að forsetatíð lauk. Dagskrá námskeiðsins skiptist í fimm hluta og munu Páll Valsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Auður Hauksdóttir skipta á milli sín kennslu um ævi Vigdísar, auk þess sem farið verður á sýninguna í Loftskeytastöðinni undir leiðsögn Maríu Theódóru Ólafsdóttur. 

Nína Dögg Filippusdóttir, sem leikur Vigdísi í samnefndum þáttum, og Silja Bára Ómarsdóttir, kennari í námskeiðinu, í húsnæði Lostskeytastöðvarinnar. Mynd/OBÞ

Sjónvarpsþættirnir verða fjórir talsins, hver og einn um klukkustundar langur, og fjalla um tímabilið frá 1948. Viðburðaríkt líf Vigdísar og aðdraganda þess að Vigdís býður sig fram til embættis forseta Íslands sem og kosningabaráttuna sjálfa sem fram fór vorið 1980.

Vegna þessara merku tímamóta, þar sem kastljósið beinist að ævi, lífi og störfum mikilvægs kvenskörungs sem mótaði hugmyndir næstu kynslóða telpna og kvenna, fékk Endurmenntun tvær konur sem tengjast verkefninu, Nínu Dögg Filippusdóttur og Silju Báru Ómarsdóttur, til að hittast í Loftskeytastöðinni og ná mynd af þeim. 

Endurmenntun hvetur öll til að fylgjast með þáttunum og tryggja sér sæti á þetta einstaka námskeið.

Vigdís Finnbogadóttir