Skip to main content
1. september 2022

Náttúrumiðaðar lausnir og norræn umhverfisverðlaun í Færeyjum

Náttúrumiðaðar lausnir og norræn umhverfisverðlaun í Færeyjum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands taka þátt í og skipuleggja viðburð um náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum í Norræna húsinu í Færeyjum fimmtudaginn 1. september en við sama tilefni verður tilkynnt um tilnefningar til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í streymi kl. 14 á íslenskum tíma.

Dagskráin er hluti af viðburðaröð Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og Norræna hússins sem nefnist „Í liði með náttúrunni“ og hófst í vor. Viðburðaröðin er helguð náttúrumiðuðum lausnum og áhrifum þeirra í víðu samhengi. Náttúrumiðaðar lausnir eru aðgerðir til að vernda og nýta á sjálfbæran hátt og endurheimta vistkerfi þannig að lífríki Jarðar, loftslag og velferð fólks njóti góðs af. Dæmi um náttúrumiðaðar lausnir eru endurheimt vistkerfa og blágrænar ofanvatnslausnir í þéttbýli.

Á viðburðinum í Norræna húsinu í Færeyjum mun Magnus Rasmussen, umhverfis- og atvinnuvegaráðherra landsins, tilkynna um tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs en þema þeirra í ár er náttúrumiðaðar lausnir sem svar við hinum stóru umhverfisáskorunum sem við stöndum nú frammi fyrir. 

Í kjölfar tilkynningar um tilnefningarnar verður boðið upp á erindi þar sem fjallað verður um hvernig náttúrumiðaðar lausnir tengjast loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni og vellíðan fólks. Aðalerindi flytur Jóna Ólavsdóttir, verkefnisstjóri hjá norrænu ráðherranefndinni fyrir náttúrumiðaðar lausnir, en Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, er meðal þeirra sem taka þátt í pallborði í framhaldinu. 

Viðburðurinn stendur frá kl. 14-16 og verður sendur út á netinu.

Nánar um viðburðinn á Facebook.

""