Skip to main content
22. apríl 2025

Nemendur fást við fjölbreytt sumarverkefni með stuðningi NN

Nemendur fást við fjölbreytt sumarverkefni með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stór hópur nemenda í grunn- og framhaldsnámi við HÍ mun í sumar vinna að nýsköpunarverkefnum á vegum HÍ og annarra stofnana og fyrirtækja með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Verkefni sem tengjast röðun æfinga hjá íþróttafélögum, fjárréttum fyrr og nú, handritum án landamæra, lúsmýi á Íslandi, flokkun á brjóstakrabbameinsvef, Íslandssögu skynfæra og kynjajafnrétti og kosningum eru meðal þeirra sem fengu styrk að þessu sinni.

Nýsköpunarsjóður námsmanna, sem vistaður er hjá Rannís, veitir árlega styrki til háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni. Alls bárust sjóðnum 293 umsóknir í ár fyrir 444 háskólanema og að þessu sinni hlutu 94 verkefni styrk eða tæpur þriðjungur umsókna. Í styrktum verkefnum eru 139 nemendur skráðir til leiks í alls 412 mannmánuði.

Verkefnin sem hljóta styrki eru á afar fjölbreyttum fræðasviðum en auk ofangreindra verkefna koma nemendur HÍ og leiðbeinendur þeirra að nýsköpunar- og þróunarverkefnum sem snerta íslenskukennslu með gervigreind, sjálfbærni í ferðaþjónustu, app fyrir greiningu erfðasjúkdóma, Grænland með augum Íslendings snemma á síðustu öld, færanlegan loftgæðamæli, bestun á orkunotkun gróðurhúsa, handbók um safnafræðslu, virkjun veiruvarna og þjóðtrú á Íslandi.

Lista yfir þau verkefni sem fengu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í ár má finna á vef Rannís.

Gimli