Nemi hlaut verðlaun fyrir lokaverkefni í verkefnastjórnun
Verkefnastjórnunarfélag Íslands veitir árlega verðlaun fyrir besta meistaraverkefnið á sviði verkefnastjórnunar innan þeirra háskóla sem kenna greinina. Í ár hlaut Guðrún Holm Aðalsteinsdóttir fyrstu verðlaun fyrir lokaverkefnið sitt „Stjórnun verkefnaskráa innan íslenskra fyrirtækja: Nýtt kraftmikið sjónarhorn fyrir stofnanir“. Rannsóknin var unnin í samstarfi við fimm fyrirtæki og með eigindlegri aðferðafræði.
Verkefnið veitir fyrirtækjum þekkingargrunn
Verkefnið fjallar um stýringu verkefnaskráa innan íslenskra fyrirtækja. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að öðlast meiri skilning á því hvernig verkefnaskráarstjórnun er komið á fót og hvernig hún er notuð í daglegum rekstri hjá íslenskum fyrirtækjum. Rannsóknin beinist að því að efla skilning á stjórnun verkefnaskráa hjá skipulagsheildum með þvermenningarlegum sjónarmiðum, að veita öðrum íslenskum fyrirtækjum þekkingargrunn sem byggist á að innleiða stjórnun verkefnaskráa og að veita leiðbeiningar um hugsanlegar rannsóknir tengdar efninu í framtíðinni.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að skipulagsheildir á Íslandi innleiða verkefnaskráastjórnunarkerfi til þess að takast á við fjölgun verkefna og aukið flækjustig þeirra. Þó mikil þörf sé til staðar fyrir kerfið þá getur myndast mótstaða við innleiðingu þess. Einnig getur verkefnaskrá hafa verið til staðar lengi innan fyrirtækja en henni ekki hafa verið stýrt á skilvirkan hátt fyrr en fyrir nokkrum árum. Fyrirtæki á Íslandi virðast vera á mismunandi þroskastigi þegar kemur að vexti og þróun þeirra á stýringu verkefnaskráa. Það var einnig áberandi að íslensk fyrirtæki viðurkenna að þau þurfa að huga að stöðugum umbótum á kerfinu til að tryggja að það virki og skili ávinningi um ókomin ár.
Tólið gerir fyrirtækjum kleift að vera skilvirk
Rannsóknin sýndi einnig að stjórnunarfyrirbærið er bæði flókið og dýnamískt og þarf að skilgreina vel tilganginn með tólinu sjálfu. Einnig gerir tólið fyrirtækjum kleift að verða meira verkefnadrifið ásamt því að ýta skipulagsheildum að hugsa meira að markvissum og skilvirkari hátt varðandi rekstur verkefna sinna.
Í gegnum tíðina hefur stjórnunarfyrirbærið stjórnun verkefnaskráa fengið meiri athygli, en þetta stjórnunarfyrirbæri þjónar mikilvægu hlutverki við að styðja stofnanir til að stýra verkefnum sínum, sérstaklega þeim sem eru verkefnadrifin og fást við mörg fjölbreytt verkefni.
Guðrún segir verkefnastjórnun vera skemmtilegt og hagnýtt nám sem muni nýtast henni vel í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.
Námið nýtist vel á öllum sviðum
Guðrún kynnist fyrst verkefnastjórnun í áfanga sem hún tók í BS námi sínu í viðskiptafræði. Þegar Guðrún er spurð út í námið þá sagði hún "Námið hefur nýst mér svakalega vel, maður fær svo víðtæka og verðmæta þekkingu sem nýtist manni í hverju sem er í lífinu. Ég myndi ráðleggja öllum að læra verkefnastjórnun því þetta veitir manni svo mikla færni í allskonar."
Henni fannst lokaverkefnið það skemmtilegasta í náminu. Þar fékk hún tækifæri til að vera sinn eigin verkefnastjóri og skipuleggja verkefnið á sinn hátt. Henni fannst áhugavert að taka viðtöl við fyrirtæki og fá raundæmi um hvernig hlutir eru framkvæmdir í atvinnulífinu. En það er nóg að gera hjá þessari öflugu konu því nú er hún í klásusnum í hjúkrunarfræði og starfar í hlutastarfi í gæðamálum hjá Lyfjastofnun þar sem hún er að stíga sín fyrstu skref í verkefnastjórnun á vinnumarkaðnum.