Skip to main content
11. desember 2024

Nóbelshátíð Heilbrigðisvísindasviðs

Nóbelshátíð Heilbrigðisvísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 10. desember voru Nóbelsverðlaun í læknisfræði afhent í Stokkhólmi. Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut tveimur bandarískum vísindamönnum, þeim Victor Ambros og Gary Ruvkun fyrir "Uppgötvun á microRNA sameindum og hlutverki þeirra í stjórn genatjáningar/The discovery of microRNA and its role in post-transcriptional gene regulation." Um er að ræða mjög merkilega uppgötvun þar sem microRNA sameindir stjórna tjáningu gena sem eru mikilvæg í þroskun lífvera og viðhaldi. Einnig gegna microRNA mikilvægu hlutverki í fjölmörgum líffræðilegum ferlum sem tengjast sjúkdómum, þar á meðal krabbameinum, taugahrörnunarsjúkdómum og hjartasjúkdómum. 

Að þessu tilefni boðaði forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Unnur Anna Valdimarsdóttir, til Nóbelshátíðar sviðsins í Hringsal Landspítalans þar sem Stefán Þórarinn Sigurðsson, prófessor og Magnús Karl Magnússon, prófessor héldu erindi þar sem þeir tæptu á því helsta í uppgötvunum Bandaríkjamannanna og áhrifum þeirra rannsókna á læknavísindi framtíðarinnar. Erindi Stefáns kallaði hann "Ný leið til stjórnunar á genatjáningu" og Magnús Karl velti í sinu erindi upp spurningunni "Hefur skilningur á microRNA varpað ljósi á sjúkdóma eða nýja meðferðarmöguleika?" Var góður rómur gerður að erindum þeirra Stefáns og Magnúsar.

Að þeim loknum veitti Eiríkur Steingrímsson, prófessor og formaður Vísindanefndar Heilbrigðisvísindasviðs, viðurkenningar fyrir áhrifamestu vísindagreinar ársins á sviðinu. Eftirfarandi vísindagreinar hlutu viðurkenningar og voru í framhaldinu kynntar í stuttu máli fyrir gestum:

  • Líf- og tilraunavísindi - Gene-based burden tests of rare germline variants identify six cancer susceptibility genes - Erna V. Ívarsdóttir, Kári Stefánsson ofl. 
  • Klínískar vísindarannsóknir – Risk of chronic kidney disease in individuals on lithium therapy in Iceland: a nationwide retrospective cohort study - Gísli Gíslason, Ólafur S. Indriðason, Engilbert Sigurðsson og Runólfur Pálsson
  • Lýðheilsuvísindi – Adverse Childhood Experiences and Adult Mental Health Outcomes - Hilda Björk Daníelsdóttir, Thor Aspelund, Unnur Anna Valdimarsdóttir ofl. 

Verðlaunahöfum er öllum óskað til hamingju og velfarnaðar í sínum störfum.
 

Verðlaunahafarnir á Nóbelshátíð HVS. Fv. Thor Aspelund, Erna V. Ívarsdóttir og Gísli Gíslason.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti HVS, stýrði fundinum.
Stefán Þórarinn Sigurðsson, prófessor
Magnús Karl Magnússon, prófessor
Eiríkur Steingrímsson, prófessor og formaður Vísindanefndar HVS afhenti viðurkenningarnar. Hér er hann ásamt Ernu V. Ívarsdóttur.