NordVulk – far and frequent sigraði í innanhússkeppni Hjólað í vinnuna
NordVulk – far and frequent, sem skipað er jarðvísindafólki við Háskóla Íslands, kom, sá og sigraði í samkeppni sem haldin var innan húss í skólanum í tengslum við átakið Hjólað í vinnuna sem fór fram dagana 8.-28. maí. Hlui liðsins tók við sigurverðlaunum á vorfagnaði rektors á Háskólatorgi 6. júní en það náði einnig glæsilegum árangri í landskeppni átaksins.
Meginmarkmið átaksins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem hagkvæmum, heilsusamlegum og umhverfisvænum samgöngumáta og eru þátttakendur hvattir til að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu.
Alls lagði starfsfólk Háskóla Íslands, sem skráði sig til leiks, að baki rúmlega 8.300 kílómetra í átakinu. Það jafngildir rúmum sex hringjum í kringum landið. Þessi árangur skilaði skólanum m.a. í 3. sæti í samkeppninni í hópi stofnana og fyrirtækja með yfir 800 starfsmenn þegar mið var tekið af hlutfalli hjólaðra daga.
Glæsilegur árangur NordVulk – far and frequent
Auk þess að hvetja starfsfólk til þátttöku stóð Háskóli Íslands fyrir sérstaki keppni innan húss milli skráðra liða eins og fyrri ár. Þrír til tíu þátttakendur máttu vera í hverju liði. Tíu lið skráðu sig til leiks og veitt voru verðlaun til þess liðs sem var með hæsta hlutfall hjólaðra kílómetra miðað við fjölda þátttakenda og þess sem náði hlutfallslega flestum þátttökudögum í átakinu.
Að þessu sinni hlutu liðsmenn NordVulk – far and frequent bæði verðlaunin. Hver einstaklingur í liðinu lagði að meðaltali að baki rúmlega 327 km og þessi árangur skilaði liðinu jafnframt í annað sæti í landskeppni Hjólað í vinnuna. Liðið var jafnframt í 3. sæti í landskeppninni þegar horft var til heildarfjölda kílómetra (2291,67km). Enn fremur hjóluðu liðsmenn til og frá vinnu rúmlega 12 af 13 keppnisdögum.
NordVulk – far and frequent er skipað sjö starfsmönnum Jarðvísindadeildar, Jarðvísindastofnunar og Norræna eldfallasetursins. Það eru
- Angel Ruiz Angulo, dósent við Jarðvísindadeild
- Eyjólfur Magnússon, vísindamaður við Jarðvísindastofnun
- Halldór Geirsson, dósent við Jarðvísindadeild
- Ívar Örn Benediktsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun
- Olgeir Sigmarsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun
- Rikke Pedersen, forstöðumaður Norræna eldfjallasetursins, NordVulk
- Rosemary Philippa Cole, nýdoktor við Jarðvísindastofnun
Auk ofangreindra afreka hlaut Angel Ruiz Angulo verðlaun fyrir bestu myndina í landskeppninni.
Þrjú efstu lið í innanhússkeppni HÍ
Hlutfall kílómetra á hvern einstakling (heildarvegalengd / fjöldi liðsmanna í liði)
- 1. sæti – NordVulk – far and frequent - 327,38km (7 í liðinu)
- 2. sæti – Aðalbygging – 129,83km (7 í liðinu)
- 3. sæti – Stakkahlíð – 108,94km (10 í liðinu)
Hlutfall þátttökudaga (fjöldi daga / fjöldi liðsmanna í liði
- 1. sæti – NordVulk - far and frequent – 12,1429 (7 í liðinu)
- 2. sæti – Námsbrautin okkar (sjúkraþj.) – 10,25 (8 í liðinu)
- 3. sæti – Lyfjaform – 8,1429 (7 í liðinu)