Ný sjálfbærniskýrsla undirstrikar áherslur HÍ tengdar heimsmarkmiðunum
Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands fyrir árið 2023 er nú aðgengileg á íslensku og ensku. Sjálfbærniskýrslan var unnin af Sjálfbærnistofnun HÍ að beiðni sjálfbærninefndar skólans.
Þetta er í þriðja skipti sem HÍ gefur út slíka skýrslu og undirstrikar útgáfa hennar áherslur háskólans í að vera leiðandi á sviði sjálfbærni, en háskólastofnanir leika lykilhlutverk í að leiða samfélagsbreytingar á því sviði. HÍ hefur þess vegna innleitt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína fyrir árin 2021–2026, HÍ26, þar sem sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af grunnstoðum stefnunnar.
Sjálfbærniskýrslan veitir innsýn í þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru í HÍ og tengjast heimsmarkmiðunum. Tilgangur hennar er að stuðla að áframhaldandi vinnu við sjálfbærni innan HÍ, gera góðan háskóla enn betri þegar kemur að því að takast á við hnattrænar áskoranir og skapa sjálfbærari framtíð.
Þar að auki er vaxandi krafa gerð til háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum. Frá því að fyrsta sjálfbærniskýrsla HÍ var gefin út árið 2022 hefur HÍ hækkað umtalsvert á lista Times Higher Education yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg áhrif. Á listanum eru háskólar metnir eftir þeim þremur heimsmarkmiðum sem þeir skora hæst á ásamt heimsmarkmiði 17, samvinnu um markmiðin.