Nýir deildarforsetar við Hugvísindasvið

Skipt var um forystu í þremur deildum Hugvísindasviðs við síðustu mánaðamót þegar Rúnar Már Þorsteinsson, Steinunn J. Kristjánsdóttir og Torfi H. Tulinius tóku við sem deildarforsetar. Rúnar Már, prófessor í nýjatestamentisfræðum, tók við af Arnfríði Guðmundsdóttur sem deildarforseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, tók við af Hjalta Hugasyni sem varadeildarforseti. Í Íslensku- og menningardeild leysti Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum, Gunnþórunni Guðmundsdóttur af hólmi en Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði, varð varadeildarforseti. Í Sagnfræði- og heimspekideild varð Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, deildarforseti í stað Svavars Hrafns Svavarssonar en Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu, varadeildarforseti í stað Steinunnar. Engar breytingar urðu á stjórn Mála- og menningardeildar en þar eru Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku, deildarforseti og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræði, varadeildarforseti. Deildarforsetar eru kjörnir til tveggja ára í senn.
Í reglum fyrir Háskóla Íslands segir um deildarforseta að hann sé m.a. faglegur forystumaður deildar og beri í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á mótun stefnu fyrir deild, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna, tengslum við samstarfsaðila og á því að starfsemi deildar og starfseininga hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun fræðasviðsins. Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðsins ásamt öðrum deildarforsetum, fulltrúa nemenda og forseta fræðasviðsins, en stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni sviðsins og hefur eftirlit með fjármálum, rekstri og gæðum starfseminnar.