Skip to main content
8. júní 2022

Nýir fulltrúar kjörnir í háskólaráð

Nýir fulltrúar kjörnir í háskólaráð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Prófessorarnir Ólafur Pétur Pálsson, Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára R. Ómarsdóttir voru kjörin til setu sem aðalmenn í háskólaráði Háskóla Íslands til næstu tveggja ára á háskólaþingi sem fram fór í Hátíðasal skólans í dag. Þrír aðrir fulltrúar úr röðum akademísks starfsfólks voru kjörnir sem varamenn í ráðið.

Auglýst var eftir framboðum og ábendingum um fulltrúa í háskólaráð nýverið og bárust sex framboð. Allir frambjóðendur uppfylltu skilyrði reglna Háskóla Íslands um framboð og fór kosningin fram með rafrænum hætti á fundinum.

Atkvæðisrétt höfðu rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, fulltrúar kjörnir af fræðasviðum, fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna og stjórnsýslu ásamt fulltrúum tengdra stofnana og samstarfsstofnana. Fulltrúar stúdenta höfðu ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu þar sem þeir kjósa sína tvo fulltrúa í háskólaráði í sérstakri kosningu. Með atkvæðisrétt fóru samtals 56 þingfulltrúar og atkvæði greiddu 46.

Niðurstöður kosninganna urðu þær að Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Mála- og menningadeild á Hugvísindasviði, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði, hlutu flest atkvæði og verða því aðalmenn í háskólaráði. Arna Hauksdóttir, prófessor Læknadeild og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, og Daníel Þór Ólason, prófessor við Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, hlutu jafnmörg atkvæði og þurfti því að beita hlutkesti til að ákveða hvort þeirra yrði varamaður fyrir fyrsta aðalmann í ráðinu. Daníel vann hlutkestið og verður því varamaður fyrir Ólaf Pétur, Arna fyrir Hólmfríði og Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði, verður varamaður fyrir Silju Báru.

Fulltrúarnir taka sæti í háskólaráði frá og með 1. júlí næstkomandi og sitja í ráðinu til loka júnímánaðar 2024.
 

Ólafur Pétur Pálsson, Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir