Nytjaþýðingar á sviði tækni og vísinda
Út er komin íslensk þýðing bókarinnar Nytjaþýðingar á sviði tækni og vísinda eftir Maeve Olohan, prófessor í þýðingafræði við Háskólann í Manchester, Bretlandi. Ritstjóri þýðingarinnar er Marion Lerner, dósent í þýðingafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, sem ritar inngang. Í honum er efni og aðferðafræði bókarinnar tengt íslenskri orðræðu um mikilvægi þýðinga og viðkvæma stöðu íslenskunnar. Hlutverk háskóla og þýðenda í því samhengi er einnig gert að umtalsefni. Þýðandi bókarinnar er Hrefna María Eiríksdóttir, stundakennari í nytjaþýðingum við Háskóla Íslands.
Bókin er hagnýt kennslubók ætluð nemendum í þýðingafræði á framhaldsstigi háskóla, þótt hana mætti að sönnu nýta í grunnnámi undir handleiðslu kennara. Hún tekur mið af aðstæðum atvinnuþýðenda og vinnuumhverfi þeirra en útskýrir að auki notkun nútímatækni í þýðingum. Sérstök áhersla er lögð á greiningu textategunda á sviði tækni og vísinda. Bókin nýtist þannig jafnframt starfandi þýðendum sem vilja styrkja sig á sérsviðum þýðinga.
Nytjaþýðingar á sviði tækni og vísinda er önnur bókin sem kemur út í ritröð Þýðingaseturs Háskóla Íslands sem er í ristjórn Gauta Kristmannssonar, prófessors í þýðingafræðum við Íslensku- og menningardeild HÍ. Sú fyrri heitir Þýðingar, endurritun og hagræðing bókmenntaarfsins eftir André Lefevere í þýðingu Maríu Vigdísar Kristjánsdóttur. Bækurnar fást í Bóksölu stúdenta.