Októberfest þjappar stúdentum saman
„Það skiptir mjög miklu máli að geta haldið Októberfest aftur því COVID-19-faraldurinn sýndi okkur hvað félagslífið er stór þáttur í því að vera stúdent. Bækurnar og námið eru stór partur af háskólalífinu en ekki síður að eignast vini og skemmta sér,“ segir Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur ásamt samstarfsfólki á skrifstofu Stúdentaráðs og víðar við að undirbúa þessa stóru hátíð sem fer nú fram í fyrsta sinn í þrjú ár.
Nærri tuttugu ár eru síðan nokkrir þýskunemar í HÍ komu saman og fögnuðu Októberfest í fyrsta sinn að þýskum hætti. Hátíðin hefur síðan þá vaxið og dafnað og er nú orðin að þriggja daga tónlistarhátíð stúdenta í Vatnsmýrinni. Októberfest fer að þessu sinni fram dagana 1.-3. september og verður í Vatnsmýrinni eins og fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Rebekka segir að hátíðin sé ekki síst mikilvæg fyrir tengslamyndun stúdenta og aðlögun þeirra að háskólasamfélaginu en kannanir hafi sýnt það skýrt að stúdentar hafi kynntist mun færra fólki í faraldrinum en fyrir hann. „Þannig að það er mjög mikilvægt að við getum haldið hátíðir eins og Októberfest þar sem fólk kemur saman og hefur gaman, kynnist nýju fólki. Það er svo stór partur af því að vera stúdent.“
Sjálf á Rebekka góðar minningar frá fyrri hátíðum og segir hana þjappa bæði vinahópum og nemendafélögum saman. „Maður rekst kannski á andlit sem maður hefur séð í tímum fyrstu dagana og fer að heilsa þeim á Októberfest og þannig kynnist fólk betur. Við hvetjum sömuleiðis nemendafélög innan deilda skólans að koma með sína hópa á svæðið. Við erum að skapa umgjörð þannig að hóparnir geti keppt sín á milli og skapað stemningu en þar erum við ekki síst að að höfða til nýnema. Þetta er tækifæri til að kynnast fólki,“ segir Rebekka en meðal þess sem í boði verður á hátíðinni eru Ølympíuleikar SHÍ, keppni milli nemendafélaga í mismunandi þrautum og leikjum.
Októberfest var síðast haldin árið 2019. „Það skiptir mjög miklu máli að geta haldið Októberfest aftur því COVID-19-faraldurinn sýndi okkur hvað félagslífið er stór þáttur í því að vera stúdent. Bækurnar og námið eru stór partur af háskólalífinu en ekki síður að eignast vini og skemmta sér,“ segir Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs.
Spennt fyrir Birgittu, Páli Óskari og Siggu Beinteins
Óhætt er að segja listi þeirra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni sé bæði langur og tilkomumikill og enn er að bætast á hann:
- GDRN
- Jói P og Króli
- Frikki Dór
- Gugusar
- RVK DTR
- Birnir
- Club Dub
- Þórunn Antonía
- Sigga Beinteins
- Bubbi
- Birgitta Haukdal
- Stuðlabandið
- Flott
- Emmsjé Gauti
- Herra Hnetusmjör
- Aron Can
- DJ Dóra Júlía
- Páll Óskar
- Una Schram
- superserious
Aðspurð um hvaða tónlistarfólk hún sé spenntust að sjá nefnir Rebekka Birgittu Haukdal. „Svo var Páll Óskar að bætast við og mér finnst alltaf gaman að sjá hann spila en ég veit að það eru mjög skiptar skoðanir hér á skrifstofu Stúdentaráðs,“ segir hún og glottir.
„Sigga Beinteins“ og „Á móti sól“ heyrist í samstarfsfólki Rebekku á skrifstofunni.
„En þetta kjarnar hátíðina svo vel, það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þetta er þverskurður af tónlistarsenunni Íslandi, bara svolítið eins og háskólastúdentarnir eru. Þetta er ólíkur hópur að koma saman en við getum samt skemmt okkur öll saman,“ segir Rebekka.
Stærsta tónlistarhátíð stúdenta á Íslandi
Aðspurð segir Rebekka að miðasala á hátíðina gangi vel en hún hvetur stúdenta til þess að vera næla sér tímanlega í miða „til að fá besta verðið og líka vegna þess að það hefur selst upp á hátíðina undanfarin ár.“
Forystusveit stúdenta segist finna fyrir mikilli stemningu fyrir hátíðinni. „Fólk er spennt en þetta er öðruvísi en vanalega þar sem hátíðin hefur fallið niður undanfarin tvö ár. Því höfum við aðeins þurft að útskýra fyrir fólki í hverju hún felst, kynna hana fyrir fólki. Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu stór viðburður þetta er. Þetta er náttúrlega stærsta tónlistarhátíð stúdenta á Íslandi og hún er fyrir alla stúdenta, ekki bara nemendur í HÍ,“ segir Rebekka og bætir við að Stúdentaráð hafi átt í góðu samstarfi við stúdentaforystu Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík við að kynna hátíðina. „Mér finnst mikilvægt að við komum öll saman og það er líka táknrænt að HÍ og HR hittist í Vatnsmýrinni.“
Stúdentaráð mun einnig keyra upp stemninguna í vikunni. „Við verðum með Mini Októberfest í litlu tjaldi fyrir utan Háskólatorg þar sem fólk getur komið og haft gaman og hitað upp fyrir hátíðina, spjallað við okkur í Stúdentaráði og hlustað á tónlistina sem er fram undan. Svo verðum við með Smitten-laug á Stúdentakjallaranum í vikunni og fleiri viðburði,“ segir Rebekka og hvetur stúdenta til að kynna sér dagskrána á Facebook-síðu Stúdentaráðs.