Skip to main content
7. október 2024

Opinberu háskólarnir vinna saman að fjölgun innflytjenda í háskólanámi

Opinberu háskólarnir vinna saman að fjölgun innflytjenda í háskólanámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Til þess að stuðla fjölgun innflytjenda í háskólanámi hafa opinberu háskólarnir á Íslandi ýtt af stað samstarfsverkefni um inngildingu í íslensku háskólasamfélagi, sem unnið er með styrk frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.

Með tilkomu fjölmenningarsamfélags og breyttri samfélagsgerð á Íslandi er mikilvægt að menntastofnanir komi til móts við og þróist samhliða fjölbreyttum þörfum samfélagsins. Jöfn tækifæri til menntunar og þjálfunar eru nauðsynlegur grundvöllur árangursríkrar þátttöku í samfélaginu og stuðlar einnig að uppbyggingu á inngildandi samfélagi. Eins og staðan er í dag fara innflytjendur síður í háskólanám en önnur ungmenni og þurfa að takast á við fleiri áskoranir og við þessu vilja opinberu háskólarnir bregðast. 

Í samstarfsverkefninu, sem er til tveggja ára, er ætlunin að þróa leiðir sem stuðla að aukinni inngildingu í háskólasamfélaginu, fjölga innflytjendum í háskólanámi og sporna við brottfalli þeirra. Það verður m.a. gert með útfærslu stuðningsúrræða, þjónustu og ráðgjafar auk þess sem þróuð verður inngildingarstefna og mótttökuáætlun ásamt fræðslu og þjálfun starfsfólks. 

Joanna Marcinkowska, sérfræðingur í fjölmenningu og inngildingu, mun stýra verkefninu. Hún verður með aðstöðu í Háskóla Íslands sem leiðir verkefnið. Starf stýrihóps leiðir Arnar Gíslason frá Háskóla Íslands og í hópnum sitja þau Anna Soffía Víkingsdóttir, Háskólinn á Akureyri, Gunnhildur Guðbrandsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands, Laufey Haraldsdóttir, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, og Juan Camilo Roman Estrada,  Sabrina Rosazza, og Sveinn Guðmundsson, Háskóli Íslands.

Fullrúar í stýrihópi og verkefnisstjóri inngildingarverkefnisins ásamt rektor HÍ á fyrsta fundi hópsins í HÍ.