Skip to main content
12. desember 2022

Ösp og Örn Eldjárn á jólaháskólatónleikum í HÍ

Ösp og Örn Eldjárn á jólaháskólatónleikum í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tónlistarmennirnir og systkinin Ösp og Örn Eldjárn spila á jólaháskólatónleikum í kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 14. desember kl. 12.15. Tónleikunum verður einnig streymt.

Háskólatónleikaröðin heldur venju samkvæmt áfram í desember og næstu tónleikar því með einkar hátíðlegum brag. Aðstandendur hlakka til að umfaðma hátíð ljóss og friðar með yl í hjarta og glóð í geði.

TIl að dýrka upp þess háttar stemningu koma til okkar systkinin Ösp og Örn Eldjárn, skrýdd unaðsröddu, slaggígju og helgum brag. Sannkölluð himnasending úr Svarfaðardalnum.

Tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 14. desember og hefjast leikar kl. 12.15 sem fyrr segir. Staður er Háskólakapellan, Aðalbyggingu. Tónleikunum verður einnig streymt og einnig er hægt að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.

Slóð á streymið má finna hér

Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér á vef HÍ.

Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.

Örn og Ösp Eldjárn