Páll Skúlason, fyrrverandi rektor, látinn
Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. apríl sl. eftir erfið veikindi.
Páll var sonur Þorbjargar Pálsdóttur kennara og Skúla Magnússonar kennara á Akureyri. Hann fæddist þar 4. júní 1945 og vantaði því rétt rúmlega mánuð til að verða sjötugur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1965, lauk BA-prófi í heimspeki frá Université Catholique de Louvain í Belgíu 1967 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla 1973. Tengsl við hinn frönskumælandi heim voru honum alla tíð hugleikin og mikilvæg fyrir störf hans í þágu Háskóla Íslands. Páll byggði upp kennslu í heimspeki við Háskóla Íslands ásamt þeim Þorsteini Gylfasyni og Mikael M. Karlssyni. Hann var lektor í heimspeki 1971-1975 og prófessor frá 1975. Páll var þrívegis forseti heimspekideildar Háskóla Íslands. Hann var formaður stjórnar Siðfræðistofnunar frá stofnun hennar 1989 og fram til 1997. Árið 1997 var Páll kjörinn rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 2005. Páll átti sér skýra hugsjón um Háskóla Íslands sem kjölfestu í íslensku samfélagi, þjóðskóla sem væri jafnframt alþjóðlegasta stofnun samfélagsins, opinn fyrir andlegum straumum og stefnum vísinda og fræða hvaðanæva að úr veröldinni. Páll beitti sér af kröftum fyrir byggingu Háskólatorgs og átti þannig ríkan þátt í að tengja okkur öll saman og skapa vettvang fyrir samræður og miðlun hugmynda. Slíkur vettvangur var nauðsynlegur til að styðja við það öfluga rannsóknar- og kennslustarf sem á sér stað í skólanum okkar.
Auk fjölmargra trúnaðarstarfa fyrir Háskóla Íslands var mikið leitað til Páls vegna starfa utan skólans. Hann var formaður stjórnar Menningarsjóðs útvarpsstöðva 1986-1990. Á árunum 1997 til 2001 var hann formaður stjórnar verkefnisins "Reykjavík menningarborg Evrópu" árið 2000. Páll var kvaddur til setu í háskólaráði Háskólans í Lúxemborg á uppbyggingartíma hans frá 2004 til 2009. Hann starfaði í þágu Samtaka evrópskra háskóla (EUA) frá 2005 við umfangsmiklar gæðaúttektir á evrópskum háskólum og frá 2007 var hann formaður alþjóðlegrar nefndar um ytra mat á Háskólanum í Lúxemborg.
Páll var frjór og afkastamikill höfundur fjölda bóka, rita og greina og skrifaði m.a. um heimspeki, náttúruvernd og málefni háskóla. Á meðal helstu rita Páls eru "Du cercle et du sujet", doktorsritgerð (1973); "Hugsun og veruleiki" (1975); "Samræður um heimspeki", ásamt Brynjólfi Bjarnasyni og Halldóri Guðjónssyni (1987); "Pælingar" (1987); "Pælingar II" (1989); "Siðfræði" (1990); "Sjö siðfræðilestrar" (1991); "Menning og sjálfstæði" (1994); "Í skjóli heimspekinnar" (1995); "Umhverfing" (1998) og "Saga and Philosophy" (1999). Síðastliðin tvö ár birti hann sex bækur um háskóla, stjórnmál og náttúru: "Ríkið og rökvísi stjórnmála" (2013); "Náttúrupælingar" (2014); "Hugsunin stjórnar heiminum" (2014); "Háskólapælingar" (2014); "Veganesti" (2015) og "A Critique of Universities" (2015). Auk þess vann hann undir það síðasta að frágangi tveggja bóka til prentunar, "Pælingar III" og "Merking og tilgangur".
Páll var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1999. Einnig hlaut hann eina æðstu heiðursorðu franska ríkisins, Chevalier de la Légion d’Honneur, árið 2006.
Lífsförunautur Páls í 50 ár var Auður Birgisdóttir og þau áttu þrjú börn. Háskóli Íslands færir fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur um leið og skólinn þakkar samfylgdina með einum af sínum bestu mönnum.