Skip to main content
2. ágúst 2022

Plágan til umfjöllunar í Ritinu

Plágan til umfjöllunar í Ritinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrsta Rit ársins er komið út og þema þess er plágan. Greinahöfundar heftisins eiga það sameiginlegt að beina sjónum sínum að því hvernig plágur birtast í textum frá ólíkum tímum. Þemagreinarnar eru fimm talsins en innan þemans eru einnig birtir skáldaðir textar eftir Steinunni Sigurðardóttur, Önu Mjallhvíti Drekadóttur, Gyrði Elíasson, Þórdísi Helgadóttur og þýðing Steinunnar Sigurðardóttur á ljóði eftir Adam Zagajewski. Auk þess prýðir heftið ljósamyndaþáttur úr smiðju Kristins Ingvarssonar sem fangar vel íslenskt samfélag á tímum kórónuveirunnar.

Í greininni „Bókmenntir í blárri móðu“ fjallar Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ, um veikar söguhetjur eins og þær koma fyrir sjónir í fornaldarsögum og riddarasögum. Hún fjallar sérstaklega um Ála flekks sögu sem hún greinir út frá veikindum Ála, aðalpersónu sögunnar, og leitast við að tengja hana veruleika fólks á 15. öld og þá sér í lagi svartadauða eða plágunni miklu sem geisaði tvívegis hér á landi á þeim tíma. Katelin Marit Parsons fjallar um íslenskar faraldurslýsingar á árnýöld. Í greininni segir hún frá því að kýlapestin hafi gengið tvisvar yfir á Íslandi á 15. öld með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið þótt langtímaáhrif plágunnar á íslenska menningu hafi ekki verið eins afgerandi og í mörgum öðrum samfélögum í Norður-Evrópu.

Alda Björk Valdimarsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ, skrifar um skáldsöguna Howards End (1910) eftir breska rithöfundinn E.M. Forster og sýnir fram á hvernig sagan setur fram lausn sem felst í jafnrétti og kvenlegri stýringu andspænis ofríki mannsins gegn heiminum og forræðishyggju, þar sem einvörðungu er tekið og engu skilað til baka. Þannig dregur Alda Björk fram hvernig sagan á vel við á tímum loftslagsbreytinga. Dauðinn gegnir lykilhlutverki í heimspeki Alberts Camus en í skrifum sínum leitast Jón Bragi Pálsson, MA í heimspeki, við að draga saman umfjöllun hans um dauðann í nokkrum lykilverkum rithöfundarins, einkum skáldsögunnar Plágunnar, til að varpa ljósi á ákveðna heildarkenningu sem býr þar að baki. Atli Antonsson, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild, bendir á að háa tíðni náttúruhamfara í íslenskum samtímabókmenntum megi túlka sem menningarlegt uppgjör við Hrunið og tengda atburði. Hann spáir því að á áratugnum sem nú er genginn í garð muni skáldskapur sem tengist úrvinnslu kórónuveirufaraldursins velta eldgosum úr sessi sem algengustu náttúruhamfarirnar í íslenskum skáldsögum.

Tvær greinar birtast utan þema að þessu sinni. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, ritstjóri og doktor í íslenskum bókmenntum, skrifar greinina „Fíklar í bata“ þar sem hún fjallar um upphafsár íslenska raunveruleikasjónvarpsins, sem kalla mætti gullaldarár þess, frá 2000–2006, og Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við HÍ, fjallar um túlkun arftaka Platons, sem voru efahyggjumenn, á heimspeki hans, í greininni „Arfur Platons“.

Hugvísindastofnun Háskóla Íslands er útgefandi Ritsins en ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Egil Eðvarðsson og nefnist Plágan.

Ritið:1/2022