Pólska orðin námsgrein við Háskóla Íslands
Pólska verður kennd í fyrsta skipti sem námsgrein við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands í haust. Áður hefur pólska verði kennd á námskeiðum við Tungumálamiðstöð HÍ en nú verður hún í boði sem 60 eininga aukagrein í pólskum fræðum. Námið er byggt upp sem eins árs fullt nám þar sem tekist verður á við pólska málnotkun, málfræði, ritun og lestur auk þess sem fjallað verður um menningu og sögu Póllands.
Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar, segir að það hafi verið löngu tímabært að hefja kennslu í pólskum fræðum við Háskóla Íslands, enda sé pólska annað mest talaða málið á Íslandi með um það bil 30.000 málhafa. „Íslendingar búa í nánu samneyti við þá fjölmörgu Pólverja sem hafa kosið að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma en því miður eru allt of fáir Íslendingar sem tala pólsku eða þekkja menningu og sögu þessa merkilega lands,“ segir Eyjólfur.
Frá kennslu á námskeiði í pólsku við Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands.
Námsleiðin er samstarfsverkefni Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og pólskra menntayfirvalda sem leggja til sendikennara. Tungumálamiðstöðin er einnig í nánu samstarfi við Polonicum sem er miðstöð pólskukennsku við Háskólann í Varsjá.