Skip to main content
23. nóvember 2022

Prófessorar við Læknadeild gefa út Háfjallakvilla

Prófessorar við Læknadeild gefa út Háfjallakvilla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Komið er út nýtt kver á íslensku um helstu háfjallakvilla ætlað almenningi eftir fimm lækna, en fjórir þeirra eru prófessorar við Háskóla Íslands. 

Í kverinu er fjallað um helstu sjúkdóma sem geta gert vart við sig í mikilli hæð yfir sjávarmáli, jafnt háfjallaveiki, sem er algengasta birtingarform hæðarveiki, sem lífshættulega sjúkdóma eins og hæðarlungnabjúg og hæðarheilabjúg. Hæðaraðlögun er útskýrð í stuttu máli, þ.e. eðlileg viðbrögð líkamans við súrefnisskorti, en jafnframt vikið að öðrum algengum háfjallakvillum eins og svefn- og meltingartruflunum, snjóblindu og kali. Farið er yfir meðferð helstu kvillanna og aftast er listi yfir þau lyf sem hentugt er að hafa með í háfjallaferðir erlendis.

Í textanum er stuðst við nýjustu rannsóknir en efnistök miðuð við almenning fremur en heilbrigðisstarfsfólk. Mikil þörf er á leiðbeiningum sem þessum til íslensks útivistarfólks sem í auknum mæli sækir í fjallgöngur og skíðaferðir á háfjallasvæði erlendis, eins og í Alpana, Klettafjöllin, Atlasfjöllin í Marokkó, Kilimanjaro og Himalajafjöllin.
 

kapa

Kverið sömdu fimm læknar, Engilbert Sigurðsson, Gunnar Guðmundsson, Magnús Gottfreðsson og Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, en fjórir þeirra eru prófessorar við Háskóla Íslands. Allir eru þeir áhugamenn um útivist og hafa tekið þátt í háfjallaleiðöngrum erlendis. Það er ríkulega myndskreytt og er gefið út í samvinnu við Ferðafélag Íslands en líka útivistarverslanirnar Fjallakofann og Everest auk 66°Norður.

Kverið kostar 1500 kr. og rennur allur ágóði til stígagerðar á hálendi Íslands.

Ólafur Már Björnsson, Gunnar Guðmundsson,  Magnús Gottfreðsson, Engilbert Sigurðsson og Tómas Guðbjartsson.