Rætt um náttúrumiðaðar lausnir í þéttbýli á Fundi fólksins
Eru náttúra og borgarumhverfi andstæður eða er náttúra í borg lykillinn að betra lífi? Hvað eru blágrænar ofanvatnslausnir? Þessum spurningum og fleirum verður svarað á málþinginu „Í liði með náttúrunni: Náttúrumiðaðar lausnir í þéttbýli“ sem haldið verður á lýðræðishátíðinni Fundi fólksins í Norræna húsinu laugardaginn 17. september kl. 13:00-13:40. Að málþinginu stendur Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands í samstarfi við Norræna húsið.
Borgarumhverfi og innviðir borga eru viðkvæm fyrir öfgum í veðurfari, svo sem flóðum og fellibyljum. Um leið hefur borgarumhverfi gjarnan neikvæð umhverfisáhrif sem sjá má til dæmis sjá á „hitaeyjum“ í borgum, aukinni mengun og tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Hvernig getum við dregið úr þessum neikvæðu áhrifum og skapað borgarrými sem vinnur með náttúrunni en ekki á móti henni? Það verður sífellt ljósara að náttúrumiðaðar lausnir eru lykilatriði í því að draga úr og aðlagast loftslagsbreytingum.
Erindi á málþinginu flytja
- Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Alta: Blágrænir innviðir í bæjum - Gróðurríkari byggð.
- Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði: Blágrænir innviðir og sjálfbærar borgir.
Í pallborði verða
- Björn Hauksson, fulltrúi Náttúruvina Reykjavíkur, nýrra hagsmunasamtaka grænna svæða í Reykjavík
- Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri vatnamála hjá Umhverfisstofnun
- Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar
Katrín Oddsdóttir stýrir umræðum.
Málþingið er hluti af viðburðaröðinni „Í liði með náttúrunni: Náttúrumiðaðar lausnir og áhrif þeirra í víðara samhengi“. Í ár eru náttúrumiðaðar lausnir þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og markmiðið með viðburðaröðinni er að varpa ljósi á náttúrumiðaðar lausnar og innleiðingu þeirra á Norðurlöndunum.