Rannsakaði pönksenuna í Argentínu

Hasan Karakilinc hefur varið sameiginlega doktorsritgerð í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Suður-Ameríku fræðum við Háskólann í Toulouse Jean Jaurès í Frakklandi. Ritgerðin ber heitið Vettvangur fjölradda andspyrnu: Útópísk skörun innan pönksenunnar í Buenos Aires á íslensku og var unnin undir leiðsögn Hólmfríðar Garðarsdóttur, prófessors í spænsku við Háskóla Íslands, og Michèle Soriano, prófessors í spænsku og bókmenntum rómönsku Ameríku við Háskólann í Toulouse Jean Jaurès.
Hasan varði ritgerðina í Toulouse 16. desember síðastliðinn og flutti doktorsfyrirlestur í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 21. mars. Þórhallur Eyþórsson, varadeildarforseti Mála- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni.
Um rannsóknina
Í rannsókninni er sjónum beint að mótun og þróun pönksenunnar í Argentínu allt frá upphafsárum hennar á áttunda áratug síðustu aldar. Til að nálgast verkefnið frá þverfaglegu sjónarhorni menningarfræða er horft til pólitískra aðstæðna og hugmyndafræðilegra áherslna þeirra sem mótuðu senuna. Andstaða við ríkjandi valdafyrirkomulag var ráðandi og til varð orðræða og tungutak sem skóp nýtt samhengi. Innan senunnar var útópískum og róttækum hugmyndum haldið á lofti. Uppbrot, spenna og skautun gerðu vart við sig og leikendur á sviði pönksins tóku þátt í stöðugri endurskoðun og endursköpun aðstæðna og aðferða. Þessar vendingar eru settar í öndvegi við greiningu hápólitískra pönktexta senunnar með það að leiðarljósi að tilgreina þá margvíslegu og áhrifamiklu krafta sem hún hefur alið af sér síðustu áratugi.
Um doktorinn
Hasan lauk BA-prófi í spænsku við Université de Bretagne Sud í Frakklandi og MA í Suður-Ameriku fræðum við Université de Toulouse II – Jean Jaurès.