Skip to main content
1. desember 2022

Rannsóknir á næringarástandi barnshafandi kvenna á Hringbraut

Rannsóknir á næringarástandi barnshafandi kvenna á Hringbraut - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknir Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands, sem snúa m.a. að áhrifum næringar á heilsu móður og barns á meðgöngu voru til umfjöllunar í sjötta og síðasta þættinum í annarri þáttaröðinni af Vísindunum og okkur á Hringbraut í vikunni. 

Rannsóknir Ingibjargar, sem veitir einnig Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala forstöðu, hafa í yfir áratug hverfst um næringarþörf barnshafandi kvenna og tengsl næringar og vaxtar fyrstu ár ævinnar við heilsu allt fram á fullorðinsár. Rannsóknirnar hafa einnig beinst að D-vítamín- og joðhag kvenna og þá hafa Ingibjörg og samstarfsfólk þróað skimunartæki til að finna konur sem gætu haft gagn af því að breyta mataræði sínu á meðgöngu.

Rannsóknirnar hafa m.a. leitt í ljós að með minnkandi neyslu á fiskmeti og mjólkurvörum hjá þjóðinni hefur orðið vart við joðskort. „Lítið joð hjá barnshafandi konum hefur verið tengt við lakari frammistöðu barna á greindarprófum,“ segir Ingibjörg m.a. en um þessar niðurstöður var fjallað á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 1. desember.

Rannsóknir Ingibjargar og samstarfsfólk hafa verið unnar með ljósmæðrum, læknum og Landlæknisembættinu og niðurstöður þeirra eru því nýttar beint í ráðleggingum til barnshafandi kvenna.

Ingibjörg hefur tekið þátt í fjölmörgum erlendum rannsóknaverkefnum og hlotið fjölda innlendra og erlendra styrkja og viðurkenningar fyrir nám og störf, þar á meðal Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2014. Hún er meðhöfundur fjölda alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina og hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðu og miðlun upplýsinga um næringu til almennings.

Í þættinum er einnig rætt við Agnesi Þóru Árnadóttur, doktorsnema Ingibjargar og Viggó Marteinssonar, prófessors við Matvæla- og næringarfræðideild og fagstjóra hjá Matís. Agnes skoðar hvaða áhrif næring móður á meðgöngu hefur á þarmaflóru barnsins. Börnum er fylgt eftir við 4 og 6 mánaða, eins árs og tveggja ára aldur og kannað hvernig þarmaflóran þróast út frá næringu móður. Þá er einnig rætti við Styrmi Hallsson meistaranema í þættinum.

Þáttinn um rannsóknir Ingibjargar og samstarfsfólks má nálgast á vef Hringbrautar.
 

Nánar um þáttaröðina

Vísindin og við er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hringbrautar en það hófst fyrr á þessu ári með frumsýningu fimm þátta um vísindamenn skólans. Umsjón með þáttunum hafa þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur og fjölmiðlakona, og Sigmundur Ernir Rúnarson, sjónvarpsmaður, rithöfundur og ritstjóri Fréttblaðsins og Hringbrautar. Þau taka hús á vísindafólki á öllum fræðasviðum skólans og úti á rannsóknasetrum hans. Þar forvitnast þau um rannsóknir vísindafólksins ásamt því að bregða ljósi á manneskjuna á bak við vísindamanninn. Einnig er rætt við nemendur og samstarfsfólk þess vísindafólks sem er í brennidepli í hverjum þætti.

Alla þættina úr báðum þáttaröðum má nálgast á vef Hringbrautar.

Ingibjörg Gunnarsdóttir