Rektor keypti fyrsta Mæðrablómið
Fulltrúar Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur heimsóttu Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, á dögunum og seldu henni fyrsta Mæðrablómið í ár. Sjóðurinn styrkir tekjulágar konur og mæður til náms, þar á meðal við Háskóla Íslands.
Undanfarin fjögur ár hefur Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur selt Mæðrablómið og helst salan jafnan í hendur við mæðradaginn. Hann var nú um helgina og í aðdraganda hans heimsótti hópur kvenna frá Mæðrastyrksnefnd Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og afhenti henni fyrsta „blómið“ sem að þessu sinni er glæsileg lyklakippa sem hönnuð er og framleidd á vegum fyrirtækisins Tulipop.
Allur ágóði af sölunni rennur í Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndarinnar. Sjóðurinn hefur frá stofnun 2012 styrkt 52 efnalitlar konur til náms, m.a. við Háskóla Íslands, en þegar hafa nokkrar konur brautskráðst frá skólanum með stuðningi sjóðsins. Stuðningurinn felst í greiðslu skrásetningargjalds við skólann ásamt 30 þúsund króna bókastyrk.
Mæðrablómslyklakippan kostar 2.500 kr. og fæst í eftirtöldum verslunum: Epal (Skeifunni, Kringlunni og Hörpu), Hrím Hönnunarhúsi (Laugavegi) og Hrím Eldhúsi, Hagkaupum í Garðabæ, Heimkaupum, Pennanum Eymundsson (um land allt), N1 (um land allt), Designed in Iceland, Lyfju (Lágmúla, Smáratorgi og Smáralind), Apótekinu (Garðatorgi, Spöng, Setbergi) og Thorvaldsenbasar.