Skip to main content
17. apríl 2023

Ritstýrir ritröð um umhverfismál með guðfræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni

Ritstýrir ritröð um umhverfismál með guðfræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræði Háskóla Íslands, er annar af tveimur ritstjórum nýrrar bókaraðar sem nefnist Explorations in Theology, Gender and Ecology og er gefin út af Bloomsbury T&T Clark.

Bókaröðin er hugsuð sem vettvangur fyrir guðfræðinga og annað fræðifólk til að fjalla um umhverfismál út frá guðfræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni. Lögð er áhersla á að höfundar komi úr ólíku menningarlegu og hnattrænu samhengi sem setji mark sitt á verk þeirra. Höfundar fyrstu þriggja bókanna búa í þremur heimsálfum, Noregi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Í bókum sínum fjalla þeir um skort á kristnum táknum til að fjalla um loftslagsvandann, guðfræðilega sýn á orkumál og jarðefnavinnslu, og túlkun biblíutexta í ljósi umhverfisvandans sem við stöndum nú frammi fyrir. Fjórða bókin er væntanleg í haust og er þar um að ræða þverfræðilegt greinasafn sem ber yfirskriftina In Solidarity with the Earth. A Multi-Disciplinary Theological Engagement with Gender, Mining and Toxic Contamination.

Fyrsta bók ritraðarinnar, Climate Change and the Symbol Deficit in the Christian Tradition eftir Jan-Olav Henriksen, hefur verið tilnefnd til bókaverðlaunanna ISSR Annual Book Prize sem veitt eru af samtökunum International Society for Science & Religion.

Ritstjóri ritraðarinnar með Arnfríði er Hilda P. Koster, prófessor við University of St. Michael’s College í Toronto, Kanada og höfundar fyrstu þriggja bókanna eru Jan-Olav Henriksen, Terra Schwerin Rowe og Anne Elvey.

Nánari upplýsingar má finna á vef Bloomsbury.

Arnfríður Guðmundsdóttir er ritstjóri nýrrar bókaraðar sem nefnist Explorations in Theology, Gender and Ecology.