Skip to main content
29. janúar 2025

Sá tækifæri til að efla misskilda snillinga 

Sá tækifæri til að efla misskilda snillinga  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„ADHD er alltaf mjög áhugavert viðfangsefni og krakkar með ADHD eru skemmtilegustu krakkarnir en þau eru oft misskilin.“ Þetta segir Dagmar Kr. Hannesdóttir, lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands sem stýrir rannsókn sem hófst nú í janúar á geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslunni og miðar að því að meta áhrif hópnámskeiða og einstaklingsráðgjafar fyrir börn með ADHD (athyglisbrest og ofvirkni). 

Dagmar lærði klíníska barnasálfræði í Bandaríkjunum og útskrifaðist með doktorspróf árið 2007. Hún hóf feril sinn á þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar en þar sá hún skortinn á úrræðum fyrir börn með ADHD og hóf að þróa prógramm sem byggðist á rannsóknum og væri aðgengilegt fyrir íslensk börn. Dagmar hefur nú unnið að þróun úrræða fyrir börn með ADHD í meira en áratug. 

„Það gleymist að taka eftir styrkleikunum þeirra þegar þau gleyma sér og fylgja ekki fyrirmælum. Það reynir á flesta kennara og foreldra að reyna að stýra þeim dags daglega en þarna er tækifæri. Þetta prógramm er hannað út frá því að vinna með þeim beint til þess að efla þau og gefa þeim verkfæri til þess að þau geti metið aðeins betur þær aðstæður sem þau eru í hverju sinni, hvort þau geti gert eitthvað öðruvísi og stóli ekki bara á að foreldrar, kennarar eða fagfólk í skólanum grípi inn í aðstæður,“ segir Dagmar. 

Krakkar fá verkfæri ýmist á hópnámskeiði eða í einstaklingsráðgjöf 

Í rannsókninni verður boðið upp á tvenns konar úrræði fyrir krakka með ADHD á aldrinum 9-12 ára. Úrræðin eru þó einnig opin fyrir krakka sem eru bara með annað hvort, t.d. bara með athyglisbrest. Sumir krakkarnir eru líka með fylgiraskanir eins og kvíða eða mótþróa. Mikil eftirspurn er eftir slíkum úrræðum og segir Dagmar umsóknirnar hafa flætt yfir teymið eftir að auglýsing fór í loftið og plássin fylltust á einum degi. Þrjátíu krakkar taki þátt í rannsókninni og verði þeim skipt af handahófi annars vegar á hópnámskeið og hins vegar í einstaklingsráðgjöf. Meistaranemar í klínískri barnasálfræði úr HÍ munu stýra báðum úrræðunum. 

Hópnámskeiðin eru kölluð Snillinganámskeið og geta sex börn setið námskeiðið í einu. Í janúar fóru tvenn Snillinganámskeið í gang og kennt er tvisvar í viku í fimm vikur í senn. Á námskeiðinu fá börnin þjálfun í tilfinningastjórnun, samskiptum, lausnaleit og sjálfstjórn. „Krakkarnir fá möppu sem heitir Snillingarnir þar sem þau vinna alls konar verkefni. Sum þeirra eru spil eða hlutverkaleikir þar sem þau eru að æfa sig í ákveðnum viðbrögðum. Við reynum að setja alla þessa fræðslu í skemmtilegan búning þar sem þau eru aktív. Ekki bara að sitja og meðtaka eitthvað uppi á töflu. Svo er náttúrulega líka mikið af umræðum í hópnum,“ lýsir Dagmar. 

Samhliða Snillinganámskeiðunum hófst einstaklingsráðgjöfin. Hún kallast Krakkaráðgjöf og fá tólf aðrir krakkar aðgang að henni. Þau munu hitta sérfræðing einu sinni í viku í fimm vikur í senn og fá fræðslu. Dagmar segir Krakkaráðgjöfina hafa svipað innihald og Snillinganámskeiðin. Krakkarnir fái bók með prógrammi sem þau fylgi. Þau læri að breyta skipulaginu hjá sér, t.d. hvernig eigi að taka til í herberginu eða að hætta að gleyma alltaf sunddótinu eða sparinestinu. 

Einnig er hópur krakka á biðlista sem bíða eftir að fá úrræði. Sex þeirra fara á Snillinganámskeið sem mun hefjast í mars. 

„Krakkarnir fá möppu sem heitir Snillingarnir þar sem þau vinna alls konar verkefni. Sum þeirra eru spil eða hlutverkaleikir þar sem þau eru að æfa sig í ákveðnum viðbrögðum. Við reynum að setja alla þessa fræðslu í skemmtilegan búning þar sem þau eru aktív. Ekki bara að sitja og meðtaka eitthvað uppi á töflu. Svo er náttúrulega líka mikið af umræðum í hópnum,“ lýsir Dagmar. 

Bera úrræðin saman og sjá hvað hentar hverju barni 

Í rannsókn Dagmarar verða úrræðin tvö borin saman. „Það er annars vegar að fá þessa fræðslu og þjálfun í krakkahópi þar sem þau fá að heyra hvað hinir krakkarnir segja og æfa sig saman í aðstæðunum. Hins vegar fá krakkar fræðslu frá fagaðila einir og sér, í meira næði en þá ná þeir betri einbeitingu. Við erum að bera þessi inngrip saman og sjá hvað hentar hverjum best,“ segir hún. 

Dagmar segir teymið einnig vera með biðlistahópinn til samanburðar. Þá sjái þau muninn á þeim krökkum sem hafa fengið úrræði og þeim sem hafa ekki fengið það. Spurningalistar verða notaðir til að meta árangur og fylgjast rannsakendur bæði með því hvernig börnin, foreldrar þeirra og kennarar upplifi breytingar með tímanum. 

Dagmar segir það vera mikilvægt að þróa úrræði sem þessi fyrir krakka til þess að skoða hvort þau virki og hvernig þau virka. Það sé lítið gert af því af því þetta séu flóknar og þungar rannsóknir sem taki mikinn tíma. 

kapa bokar

Kápa bókarinnar Lærðu að hægja á sem notuð verður í Krakkaráðgjöfinni.

Væntir þess að úrræðin virki vel og geti orðið algengari og aðgengilegri  

Rannsókn Dagmarar byggist á öðrum svipuðum rannsóknum sem hafa gefið jákvæðar vísbendingar um að hópnámskeið og einstaklingsráðgjöf séu áhrifarík inngrip fyrir börn með ADHD. Hún væntir þess að niðurstöður hennar verði á pari við niðurstöður þeirra rannsókna. „Vonandi kemur í ljós að úrræðin virka, að þau bæti félagsfærni og sjálf- og tilfinningastjórn barna með ADHD. Við erum að vonast til að sjá að krakkarnir sem útskrifast af námskeiðunum takist á við þessa þætti betur en krakkarnir sem eru á biðlista. Svo þurfum við fleiri námskeið á næsta ári til að skoða betur undirhópa og krakka með fylgiraskanir,“ segir hún og vonast einnig eftir því að rannsóknin gefi góða hugmynd um hvaða úrræði henti hverju barni. 

Dagmar segir inngripin stundum hafa verið veitt á klíník í heilsugæslu og háskólum en einnig sé hægt að veita þessi úrræði í skólum þar sem þau séu einföld í innleiðingu og framkvæmd. Inngripin krefjist ekki endilega sálfræðinga til að keyra þau áfram. Fagfólk í skólum gæti því nýtt þau til að efla börn með ADHD. Dagmar telur því úrræðin hafa möguleika á að verða víðtækari, bæði hérlendis og erlendis. Þörfin fyrir úrræði fyrir börn með ADHD sé mikil og eftirspurnin hafi verið gríðarleg. Því sé nauðsynlegt að koma til móts við hana og vonar Dagmar að rannsókn hennar verði skref í rétta átt í þeim efnum.

Höfundur greinar: Guðríður Jóhannsdóttir, BA-nemi í blaðamennsku.

Dagmar Kr. Hannesdóttir