Skip to main content
23. júní 2023

Sæmdir fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn

Sæmdir fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir prófessorar við Háskóla Íslands, þeir Davíð Ottó Arnar og Helgi Guðmundsson, voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á hátíðlegri athöfn á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þeir voru í hópi 14 Íslendinga sem fengu orðuna að þessu sinni.

Davíð Ottó Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og prófessor við Læknadeild, hlýtur riddarakrossinn fyrir framlag til hjartalækninga, vísindarannsókna og nýsköpunar.

Davíð lauk kandídatsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands og doktorsprófi frá sama skóla. Auk þess hefur hann lokið meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann var við sérfræðinám við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum og lauk þaðan sérfræðinámi í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðilsfræði hjartans. 

Megináherslur Davíðs í rannsóknum hafa verið á sviði erfðafræði hjartsláttartruflana, sér í lagi gáttatifi, og nýtingu erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Davíð hefur unnið mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu í þeim rannsóknum. Einnig hefur hann starfað Hjartavernd að rannsóknum á afleiðingum gáttatifs og fyrirtækinu Sidekick Health að nýtingu snjalltækni til fjarvöktunar á einkennum og líðan hjartasjúklinga.

Helgi Guðmundsson, prófessor emeritus íslensku, hlýtur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til menntunar og rannsókna á sviði íslenskra fræða. 

Helgi stundaði nám í málvísindum og samanburðarmálfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1953–1954 og Oslóarháskóla 1954–1956 og lærði jafnframt írsku á Írlandi. Við Háskóla Íslands tók hann BA-próf í grísku og latínu 1961. Hann nam síðar íslensk fræði við skólann og lauk cand.mag. prófi árið 1965. Bók hans Um Kjalnesinga sögu kom út árið 1967. Doktorsritgerð sína um hvarf tvítölu í fornöfnum íslensku og ýmissa annarra mála, The Pronominal Dual in Icelandic (1972), varði hann árið 1973. Rannsóknir Helga hafa á síðustu áratugum einkum snúist um íslenska menningu fyrr á öldum og tengsl hennar við útlönd, ekki síst löndin fyrir vestan haf. Um þetta efni fjalla bækur hans Um haf innan (1997), Land úr landi (2004) og Handan hafsins (2012).

Helgi vann um skeið við íslenska orðabók Menningarsjóðs en starfaði síðan samfellt við Háskóla Íslands frá 1965 til 2003, síðast sem prófessor. 
 

Handhafar heiðursmerkis hinnar íslensku fálkaorðu ásamt forseta Íslands á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn