SageWrite hlaut styrk úr Women TechEU
Fyrirtækið SageWrite hefur hlotið 75.000 evra styrk úr Women TechEU, nýjum styrkjasjóði Evrópusambandsins sem er ætlað að styðja við bakið á tæknifyrirtækjum undir stjórn kvenna. Elena Callegari, nýdoktor við Rannsóknarstofuna Mál og tækni við Háskóla Íslands, stýrir fyrirtækinu sem hún stofnaði í fyrra ásamt Desara Xhura með styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís. Þetta í fyrsta skipti sem Women TechEU styrkir íslenskt fyrirtæki.
SageWrite þróar textagerðarkerfi og textabætandi lausnir fyrir fræðileg skrif og segir Elena að styrkur Women TechEU verði nýttur í þróun sérhæfðari kerfa hjá fyrirtækinu sem nýtast fræðafólki við ritun texta á ólíkum fræðasviðum: „Sérfræðingur á sviði málvísinda getur þá valið sér textakerfi sem er sérhæft fyrir málvísindi, öreindafræðingurinn velur sér textakerfi sérhæft í eðlisfræði og svo framvegis. Þessi sérhæfðu kerfi munu skrifa mun vandaðri texta en núverandi kerfi.“
Í frétt HÍ um stofnun fyrirtækisins í fyrra segir að markhópur þess sé stór, eða allir þeir sem skrifa vísindagreinar á ensku.