Samstarfsverkefni Tungumálamiðstöðvar og Polonicum fær styrk frá NAWA
Samstarfsverkefni Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og Polonicum miðstöðvarinnar við háskólann í Varsjá fékk nýverið styrk frá NAWA (The National Agency for Academic Exchange) í Póllandi fyrir verkefni sem nefnist „ReyVarstígur – frá Reykjavík til Varsjár: á slóðum pólsku upplýsingarinnar“. Kjarni verkefnisins er námsferð tíu nemenda frá Háskóla Íslands til Varsjár næsta haust þar sem þeir fá kennslu í pólsku og munu einnig fræðast um pólska menningu og þá sérstaklega pólsku upplýsinguna á 18. öld. Í lok árs 2025 verður svo haldið málþing við Háskóla Íslands þar sem bæði pólskir og íslenskir sérfræðingar um upplýsinguna halda erindi með þátttöku nemenda sem munu gera grein fyrir námsferðinni og kynna verkefni sem þeir unnu í tengslum við hana.
Það er dr. Justyna Zych frá Polonicum-miðstöðinni í Varsjá sem hefur umsjón með verkefninu en alls koma tíu starfsmenn frá Háskólanum í Varsjá að því og þrír starfsmenn frá Háskóla Íslands, þau Mariola Fiema, aðjúnkt í pólskum fræðum, Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar og Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum. Eyjólfur segir að styrkurinn muni styðja við nám í pólskum fræðum við Háskóla Íslands og efla miðlun pólskrar menningar hér á landi. Pólsk fræði voru kennd í fyrsta skipti sem námsgrein við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands haustið 2023 og eru nú í boði sem 60 eininga aukagrein og 60 eininga grunndiplóma.