Skip to main content
28. febrúar 2025

Sigraði í Gullegginu með lausn sem einfaldar skráningu lyfja á markað

Sigraði í Gullegginu með lausn sem einfaldar skráningu lyfja á markað - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ómar Ingi Halldórsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, sigraði í frumkvöðlakeppninni Gullegginu ásamt meðstofnanda sínum, Guðjóni Ásmundssyni, á dögunum. Þeir vinna að gervigreindarlausn sem hefur það að markmiði auðvelda lyfjafyrirtækjum að útbúa umsókn um markaðsleyfi fyrir lyf. Ómar, sem útskrifast frá Háskóla Íslands í vor, hefur nýtt tækifærin sem bjóðast innan HÍ afar vel og bæði farið í skiptinám og sumarnám í virta erlenda háskóla á vegum skólans. Sumarnám við Stanford-háskóla nýttist honum afar vel þegar kom að þróun vinningshugmyndarinnar í Gullegginu. 

Samkeppnin um Gulleggið er haldin árlega á vegum KLAK, félags í eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Origo, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins sem styður við hvers kyns nýsköpun. Markmiðið með Gullegginu, sem haldið hefur verið síðan 2008, er að styðja frumkvöðla sem eru á fyrstu stigum hugmyndaþróunar og að hefja sína vegferð innan nýsköpunargeirans.

Hugmynd Guðjóns og Ómars, SagaReg, var ein tíu hugmynda sem kepptu til úrslita í Gullegginu í ár og í sigurlaun fengu þeir tvær milljónir króna sem nýtist til að þróa lausnina áfram. 

omar og gudjon

Ómar Ingi Halldórsson og Guðjón Ásmundsson með sigurverðlaunin í Gullegginu. MYND/Gulleggið

Gervigreind og sérhæfður hugbúnaður leysa mannshöndina af hólmi

Samstarf þeirra félaga hófst fyrir tilstilli foreldra Ómars, sem bæði þekktu Guðjón en hann hafði komið að gerð svokallaðra umsóknarskjala (e. dossiers) þegar hann starfaði hjá lyfjafyrirtækinu Alvotech. Umsóknarskjöl eru gögn sem lyfjafyrirtæki þurfa að leggja fram þegar þau sækja um markaðsleyfi fyrir lyf en gögnin snerta m.a. rannsóknir, þróun og gæðaprófanir á lyfinu. 

Að setja saman umsóknarskjal fyrir nýtt lyf er afar umfangsmikið og tímafrekt ferli og felst m.a. í að taka saman mikinn texta, búa til töflur, færa gögn milli Excel-taflna og fleira, og eins og stendur er þetta allt gert handvirkt. Þegar Guðjón vann hjá Alvotech fór hann að velta fyrir sér hvernig hægt væri að gera ferlið skilvirkara og fékk hugmynd að lausn. „Ég frétti í gegnum foreldra mína að Guðjón væri með einhverjar gervigreindarhugmyndir og þegar hann hætti hjá Alvotech tengdu þau okkur saman, sem var í haust. Við byrjuðum að spjalla um þetta og svo ákváðum við að stofna félag í kringum þessa hugmynd, SagaReg,“ segir Ómar um upphaf verkefnisins.

Lausn þeirra snýst um að nýta gervigreind og sérhæfðan hugbúnað til að sjálfvirknivæða textaskrif, töflugerð og gæðaeftirlit við gerð umsókna um markaðsleyfi lyfja en með því má tryggja að hraðari og áreiðanlegri umsóknir til heilbrigðisyfirvalda. Lausnin getur nýst bæði lyfjafyrirtækjum hér heima og erlendis.

Thattakendur

Aðstandendur þeirra tíu hugmynda sem kepptu til úrslita og fulltrúar aðstandenda keppninnar. MYND/Gulleggið

Guðjón og Ómar hafa þegar kynnt hugmyndina fyrir starfsfólki innan lyfjafyrirtækja og meðal lykilaðila sem hafa reynslu af vinnu við markaðsumsóknir fyrir lyf. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð. Við erum enn fremur að fara kynna verkefnið frekar í erindum á vegum Lyfjafræðingafélags Íslands og hjá Lyfjastofnun á næstunni. Lyfjageirinn og -fyrirtækin eru spennt  fyrir að skoða þessa lausn með okkur og við stefnum á að komast í þróunarsamstarf við íslenskt lyfjafyrirtæki til að þróa vöruna okkar á næstunni,“ segir Ómar.

Þátttakan í Gullegginu opnaði nýjar víddir

Ómar og Guðjón skráðu sig til leiks í Gulleggið í upphafi árs og sjá svo sannarlega ekki eftir því enda reyndist þátttakan bæði lærdómsrík og gjöful fyrir þá. Ómar segir vinnustofurnar í frumkvöðlakeppninni hafa verið afar gagnlegar, þar á meðal vinnustofur um það hvernig á að koma fram og kynna hugmyndina á mannamáli. „Þetta nýttist afar vel og það gaf mér mikið sjálfstraust til að þora að ýta hugmyndinni áfram. Mikilvægast er líka allt utanumhaldið, þú færð viðbrögð við hugmyndinni úr svo mörgum áttum og um leið byggir maður smám saman upp tengslanet sem er afar mikilvægt. Þetta opnaði nýjar víddir, bæði fyrir hugmyndina og fyrir sjálfan mig,“ segir Ómar um þátttökuna í Gullegginu.

omar kynnir

Ómar og Guðjón kynna hugmyndina á bak við SagaReg fyrir fullum sal í Grósku. MYND/Gulleggið

Aðspurður hvort hann hafi átt von á því að vinna segir Ómar að svo hafi ekki verið þótt þeir hafi mikla trú á lausninni. „Hugmyndin sem ég hélt að myndi vinna komst ekki í efstu þrjú sætin en það segir mjög mikið um gæði hugmyndanna í keppninni og hversu hörð samkeppnin var,“ segir hann.

Þátttakan færði þeim samstarfsfélögum ekki aðeins tvær milljónir króna í verðlaunafé sem nýtast mun til að þróa hugmyndina áfram. „Sigurinn þýðir líka að verkefnið fær athygli og vekur áhuga hjá ýmsum aðilum en um leið fær maður viðbrögð frá fólki sem þekkir frumkvöðlaumhverfið hér vel og hefur skoðun á verkefninu sem er ómetanlegt, ekki síst ef það þekkir til í lyfja- eða heilsugeiranum. Ferlið sjálft fannst mér skipta meira máli en sigurinn en auðvitað er það geggjað að hafa unnið,“ segir Ómar.

Nokkur aldursmunur er á þeim Ómari og Guðjóni en Ómar segir að samvinna þeirra í verkefninu hafi gengið afar vel. „Guðjón er ungur í anda og hefur mikla reynslu. Hann er mjög hugmyndaríkur og leyfir huganum að fara á flug á meðan ég er meira svona meira greinandi en það ætti eiginlega að vera öfugt miðað við aldur okkar,“ segir Ómar og kímir. MYND/Gulleggið

Verkfræðihugsun eitt mikilvægasta tólið í sköpun

Ómar er á þriðja ári í BS-námi í rafmagns- og tölvuverkfræði og segir námið hafa nýst afar vel við þróun lausnarinnar. „Í skólanum er maður alltaf að grúska og reikna einhver dæmi og veltir stundum fyrir sér: Hvað er ég að gera? Af hverju er ég ekki að „gera“ eitthvað? En maður áttar sig á því eftir á að maður er búinn að byggja upp ákveðna hugsun, verkfræðihugsun sem að mínu mati er eitt mikilvægasta tólið sem þú getur haft ef þú ert að skapa eitthvað. Að geta horft á hlutina og áttað sig á hvað virkar og hvað ekki, hvernig á að nálgast vandamál. Það er mjög gott,” segir hann.

domefnd

Ómar og Guðjón ræða við dómnefnd Gulleggsins um verkefni sitt. MYND/Gulleggið

Þá nýtist tækniþekkingin sem hann öðlist í náminu líka mjög vel. „Nú er ég að þróa vöru og veit svo sem ekki nákvæmlega hvernig við ætlum að gera þetta en er með ákveðna hugmynd og ég get séð fyrir mér hvaða hlutar tækninnar nýtast í hvaða vinnu. Það geri manni auðveldara að sjá hlutina fyrir sér. Ég væri ekki í þessari stöðu ef ekki væri fyrir rafmagns- og tölvuverkfræðina,“ bætir Ómar við.

Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Ómar hlýtur í háskólanámi því hann hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands þegar hann innritaðist í rafmangs- og tölvuverkfræði. En af hverju skyldi sú grein hafa orðið fyrir valinu? „Það var bara gamla góða útilokunaraðferðin, eins og í skiptináminu,“ segir Ómar og brosir. „Það var 100% rétt ákvörðun og sameinar áhuga minn á verkfræði, stærðfræði og tækni. Svo er svakalega mikið að gerast í rafmagns- og tölvuverkfræði og miklar nýjungar að koma fram í upplýsingatækniheiminum. Þetta nám veitir líka mikla valmöguleika til framtíðar. Maður getur t.d. valið að vera innan nýsköpunargeirans eða verið í meiri rannsóknavinnu og stærðfræði sem ég hef líka mikinn áhuga á.“

Námskeið í Stanford nýtast afar vel í nýsköpunarvinnunni

Óhætt er að segja að Ómar hafi nýtt þau tækifæri sem nemendum bjóðast innan HÍ afar vel. Hann hefur sem fyrr segir bæði farið í skiptinám og sumarnám til útlanda í gegnum tengsl Háskóla Íslands við suma af fremstu háskólum heims. Í skiptinámi sínu dvaldi Ómar eina önn í University of Melbourne í Ástralíu og var þar í hefðbundinni rafmagns- og tölvuverkfræði. „Maður verður svolítið einangraður hinum megin á hnettinum en þetta var samt yndislegur tími. Ég myndi mæla með því við hvern sem þorir að fara í skiptinám. Við vorum reyndar tveir úr rafmagns- og tölvuverkfræðinni í HÍ í skólanum og við erum bestu vinir í dag,” segir Ómar um dvölina í Ástralíu.

Melbourne

Ómar á góðri stund með félögum í University of Melbourne í Ástralíu. MYND/Úr einkasafni

Sumarið 2023 sótt hann enn fremur sumarnámskeið við hinn virta Stanford-háskóla í Bandaríkjunum sem átti heldur betur eftir að nýtast vel. „Ég tók tvö námskeið í Stanford. Eftir á að hyggja valdi ég mjög skemmtilega og praktíska kúrsa, vélrænt nám (e. machine learning) og námskeið í nýsköpun og frumkvöðlafræði,“ segir Ómar en hvort tveggja nýtist í nýsköpunarverkefninu sem hann vinnur núna að.

Standford

Fulltrúar Háskóla Íslands í Stanford sumarið 2023, Ómar er lengst til vinstri. MYND/Úr einkasafni

Horfir fram á spennandi tíma með SagaReg

Ómar segir aðspurður að hann hafi lengi haft áhuga á nýsköpun. „Þetta hefur alltaf blundað aftast í heilanum og bara spurning hvenær maður ákveður að rífa í gikkinn,” segir hann og bætir við: „Áhuginn kviknaði fyrir alvöru þegar ég vann hjá Noona sumarið áður en ég innritaðist í rafmagns- og tölvuverkfræði. Þar kynntist ég yndislegu fólki sem veitti mér góða sýn á það hvað ég vildi gera í framtíðinni, bæði hvað varðar hugmyndir um lífið og framtíðaratvinnu. Svo var ég að vinna síðasta sumar hjá Lucinity og ég hef verið að fylgjast töluvert með nýsköpun og nýsköpunarfyrirtækjum og verið mjög heillaður af þessum geira en ákvað að kýla á þetta sjálfur í þetta skiptið,” segir hann og vísar í SagaReg.

Það verður nóg að gera hjá Ómari þessa síðustu mánuði í Háskóla Íslands áður en hann útskrifast í júní. „Eins og staðan er núna ætlum við Guðjón að halda áfram með verkefnið næstu þrjá til fjóra mánuði samhliða námi mínu í HÍ og klára að búa til prufuútgáfu af lausninni. Eftir það stefnum við svo á fjármögnun til þess að byggja lausnina upp að fullu. Við erum fullir bjartsýni við að þróa hugmyndina frekar en að það er að mörgu að hyggja. Ég er kominn inn í meistaranám í rafmagns- og tölvuverkfræði í Columbia-háskóla í New York í haust en hef ákveðið að sleppa því að innrita mig þar, bæði vegna spennandi tíma fram undan hjá SagaReg og vegna þess að ég tel að sú ákvörðun mun gefa mér betri sýn á það hvað ég vil gera í framtíðinni,“ segir þessi efnilegi frumkvöðull að endingu.

Sigurvegaranir ásamt háskóla-, nýsköpunar og menningarráðherra og fulltrúum aðstandenda Gulleggsins. Frá vinstri: Jenna Björk, Sara Pálsdóttir, Ómar Ingi Halldórsson,  Guðjón Ásmundsson, Logi Einarsson, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir og Sigíður Mogensen. MYND/Gulleggið