Sigríður Zoëga og Sigurður J.Grétarsson hljóta kennsluverðlaun
Sigríður Zoëga, dósent við Hjúkrunarfræðideild og Sigurður J. Grétarsson, prófessor við Sálfræðideild, hafa hlotið viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur og sérstök nýmæli í kennslu við Heilbrigðisvísindasvið. Inga Þórsdóttir, forseti sviðsins, afhenti þeim viðurkenninguna á dögunum.
Rökstuðningur á vali Sigríðar Zoëga
Þegar Sigríður hóf störf við Hjúkrunarfræðideild sótti hún nám í kennslufræði háskóla hjá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Þekkingunni sem hún aflaði sér þar hefur hún beitt við þróun kennslu og skapandi kennsluhætti. Sigríður tileinkaði sér kennsluhætti þar sem nemendur eru virkjaðir í kennslustundum, notaðist við Socrative, lausnarleitanám, hlutverkaleiki og fleira. Hún er ötul í að samþætta klíníska og bóklega kennslu. Hún tekur viðfangsefni sem nemendur takast á við í Færnistofu og vinnur með þau áfram í fyrirlestrum. Árangur Sigríðar með þessum kennsluháttum hefur sýnt sig í lifandi kennslu, enda sinnir hún kennslu sinni af alúð sem endurspeglast í nemendakönnunum. Hún er vinsæll kennari og samkennarar leita til hennar.
Sigríður hefur verið virk í kennsluþróun Hjúkrunarfræðideildar og hefur setið í námsnefnd grunnnáms og í nefnd tengdri breytingum á meistaranámi. Henni hafa verið falin þessi verkefni sökum þekkingar og vilja til að prófa nýjungar í kennslu og innleiða það sem reynist vel. Sigríður er með umsjón með námskeiðum bæði í grunnnámi og framhaldsnámi og hefur leiðbeint fjölda BS- og MS nemenda í lokaverkefnum auk leiðbeiningar doktorsnema.
Sigríður hefur leitt þróun á námskeiðinu Hjúkrunarrannsóknir sem var sett á laggirnar haustið 2018. Það er ætlað nemendum sem hafa sérstakan áhuga á rannsóknum og vísindastarfi. Nemendur hefja nám á haustmisseri annars námsárs og námskeiðinu lýkur á fjórða námsári.
Sigríður kennir klínísku starfsfólki og nemendum á Landspítala af mikilli fagmennsku. Sigríður er metnaðarfullur og vinsæll kennari meðal nemenda og samstarfsfólks. Hún nýtur trausts meðal kennara og það hefur sýnt sig frá því hún hóf störf við deildina að það er gott að leita til hennar með verkefni og hún tekur slíkum beiðnum vel. Sigríður á margt óunnið eftir í sínu starfi við deildina.
Rökstuðningur á vali Sigurðar J. Grétarssonar
Sigurður hóf störf við kennslu í sálfræði árið 1988 og hefur verið prófessor við Sálfræðideild HÍ frá árinu 2000. Framlag hans til deildarinnar á því sviði er í raun ómetanlegt. Sigurður átti stóran þátt í að móta deildina í núverandi mynd og hefur frá upphafi helgað sig kennslu. Hann hefur lagt metnað sinn í að tryggja gæði námsins og er leiðtogi Sálfræðideildar í málefnum tengdum kennslu. Hann stendur til dæmis fyrir föstu kennslukorteri á hverjum kennarafundi þar sem kennari segir frá nýjungum í kennslu, eða hverju öðru kennslutengdu sem á honum brennur. Þessi kennslukorter hafa spilað lykilhlutverk í því að tryggja reglulegar umræður um kennslu innan deildarinnar og verið öðrum kennurum mikill stuðningur.
Sigurður hefur setið í ótal kennslutengdum nefndum fyrir deild, svið og skólann. Hann er mjög ósérhlífinn í kennslu og hefur vakað yfir réttindum nemenda. Hann kom til dæmis á umboðsmanni nemenda í kjölfar sjálfsmatsskýrslu Sálfræðideildar, en það fyrirkomulag hefur nú verið tekið upp í mörgum öðrum deildum háskólans. En fyrst og fremst er Sigurður framúrskarandi kennari sem hefur veitt fjölda nemenda innblástur og haft áhrif á marga þeirra til framtíðar.