Sjö til sumarnáms í Stanford
Í sumar verða sjö nemendur Háskóla Íslands við nám í Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, í svokölluðu Stanford Summer International Honors Program. HÍ er einn fárra háskóla í heiminum sem hefur kost á að senda nemendur í þetta sérstaka heiðursprógram sem stendur yfir í átta vikur.
Nemendurnir sjö sem halda til Stanford eru þau: Agatha Elín Steinþórsdóttir, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, Ásgerður Erla Haraldsdóttir, nemi í sálfræði, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir, nemi í efnaverkfræði, Iðunn Andradóttir, nemi í læknisfræði, Kristján Dagur Egilsson, nemi í hagnýtri stærðfræði, Ómar Ingi Halldórsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Urður Andradóttir, nemi í læknisfræði.
Háskóli Íslands hefur átt í samstarfi við Stanford-háskóla frá árinu 2010 en hann er einn fremsti háskóli heims og býður upp á nám á breiðu sviði.
Þetta er í ellefta sinn sem nemendur frá Háskóla Íslands fá þetta einstaka tækifæri á að stunda sumarnám við Stanford-háskóla. Sumarnámið gerir nemendum kleift að kynnast einstöku háskóla- og vísindasamfélagi og þeir eiga auk þess möguleika á að fá námið metið inn í námsferil sinn við HÍ.