Skip to main content
15. apríl 2020

Skimun bendir til að innan við 1% sé smitað af COVID-19

""

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar, Háskóla Íslands og Landspítala unnu í samstarfi við Embætti landlæknis benda til að um 0,8% Íslendinga séu smitaðir af SARS-Cov-2-veirunni sem veldur COVID-19. Það rennir aftur stoðum undir það að kenningar um að einkennalausir geti verið smitberar séu réttar. Greint var frá niðurstöðunum í bandaríska læknatímaritinu New England Journal of Medicine í gær. 

Rannsókin byggðist á þeim skimunum fyrir veirunni sem sóttvarnayfirvöld og Íslensk erfðagreining hafa staðið fyrir frá því um miðjan mars. Alls náði hún til sýna úr 10.797 einstaklingum á Íslandi sem skráðu sig sjálfviljugir í sýnatöku. Í þeim hópi reyndust 87 smitaðir, eða 0,8%. Eilítið lægra hlutfall smitaðra var í hópi þeirra 2.283 einstaklinga sem voru valdir af handahófi til sýnatöku. Þá sýna niðurstöðurnar að 43% þátttakenda, sem reyndust vera með veiruna, höfðu ekki fundið fyrir neinum einkennum en þeirra varð þó vart síðar í sjúkdómsferlinu. 

Þá reyndust börn yngri en tíu ára og konur ólíklegri en ungmenni, fullorðnir eða karlmenn til að greinast smitaðar af veirunni. Er það í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á veirunni. Ekki er vitað hvort það sé vegna þess að börn og konur hafi komist minna í snertingu við veiruna en aðrir eða hvort að þau hafi náttúrulegt þol fyrir henni. 

Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu vegna birtingar greinarinnar í New England Journal of Medicine kemur fram að markmið hennar hafi verið að rannsaka hvernig veiran breiðist út í samfélagi þar sem brugðist var snemma við faraldrinum með víðtækri skimun og sóttkví og einangrun smitaðra.

Greinarhöfundar telja að þó að aðgerðir heilbrigðisyfirvalda hafi borið árangur til þessa sé þörf á frekari gögnum til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig eigi að koma böndum á veiruna í framhaldinu.

Í rannsókninni var enn fremur teiknað upp ættatré mismunandi stökkbreytinga í erfðamengi veirunnar ásamt því að rekja uppruna fyrstu smitanna. Þau voru rakin til Ítalíu og Austurríkis og bárust hingað með fólki sem sneri heim úr skíðafríi. Eftir því sem á leið fundust fleiri sýni sem mátti rekja til annarra landa, þar á meðal landa sem voru ekki talin áhættusvæði.

Alls fundu rannsakendurnir fundu 130 stökkbreytingar sem hafa ekki fundist annars staðar en á Íslandi.

Að rannsókninnir kemur stór hópur vísindamanna við Íslenska erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Landspítala í samstarif við Embætti landæknis en þess má geta að vísindamenn Háskólans koma af þremur af fimm fræðasviðum skólans.

Greinina í heild sinni má nálgast á vef New England Journal of Medicine.

Rafeindasmásjármynd af kórónuveirunni SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Mynd/Wikipedia Commons (sótt 19.03.2020)