Skip to main content
13. júní 2022

Skordýraskoðun í Elliðaárdal – Án skordýra væri ekki skemmtilegt

Skordýraskoðun í Elliðaárdal – Án skordýra væri ekki skemmtilegt - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þótt fæstir kæri sig um skordýr í hýbýlum sínum þá vekja þau engu að síður mikla forvitni enda er skordýraganga Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands árviss og vinsæll viðburður þar sem ungir og aldnir fá kjörið tækifæri til að skoða skordýr í algjöru návígi. Að þessu sinni hefur Náttúruminjasafn Íslands bæst í hóp samstarfsaðila um gönguna sem fer fram í Elliðaárdal miðvikudaginn 15. júní nk. og hefst kl. 18 frá gömlu rafstöðinni. Bílastæði eru í næsta nágrenni. 

Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við HÍ, leiðir gönguna eins og oft áður en einnig leiðbeinir Ólafur Patrick Ólafsson, kennari við HÍ og tækjavörður, gestum og gangandi. Ólafur Patrick hefur kennt plöntulíffræði, dýrafræði og vistfræði í mörg ár við Háskóla Íslands. 

Gísli Már hefur ákveðna skoðun á skordýrum en gangan er partur af afar vinsælu samstarfi HÍ og FÍ undir heitinu Með fróðleik í fararnesti. Að þessu sinni er Náttúruminjasafn Íslands einnig þátttakandi í samstarfinu. 

„Skordýr eru ríkjandi flokkur dýra á jörðinni og auðvitað eru til skordýr sem margir yrðu ánægðir með að hyrfu af sjónarsviðinu. Moskítóflugur valda t.d. dauða fleiri manna á hverju ári en krabbamein, skordýr éta uppskeru bænda, eyðileggja limgerði og tún og sum skordýr á Íslandi, eins og bitmý og lúsmý, valda óþægindum. Allt er þetta hins vegar smámunir miðað við það sem gerðist ef öll skordýr hyrfu af sjónarsviðinu,“ segir Gísli Már sem mætir ásamt vísindafólki úr HÍ og Náttúruminjasafni Íslands í Elliðaárdal þann 15. júní með tól og tæki til að skoða skordýr í gríðarlega stækkaðri mynd. En fyrst þarf fólk að leita í gróðrinu og finna þau.

Með í för verða Þóra Atladóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir frá Náttúruminjasafni Íslands. Þóra er með BS í náttúru- og umhverfisfræði frá LBHÍ og er núna meistaranemi í vatnalíffræði við Háskólann á Hólum í samstarfi við Náttúruminjasafnið. Þorgerður er með BS í líffræði frá HÍ en auk þess hefur hún lokið diplómaprófi í safnafræði frá skólanum. 

Gísli Már segir að komið verði upp smásjám og tækjum við rafstöðina frá HÍ til að skoða skordýrin enn betur. 

Mennirnir algerlega háðir skordýrum

„Afkoma manna er háð skordýrum og sennilega gæti maðurinn sem tegund ekki lifað án þeirra,“ segir Gísli Már sem hefur verið afkastamikill vísindamaður á sviði vatnalíffræði og birt gríðarlegan fjölda vísindagreina í virtum tímaritum í áranna röð. „Ef einhverjir menn mundu lifa af skordýraleysi yrði mannkynið mjög fámennt.“ 

Gísli segir að skordýr séu borðuð af fólki í mörgum löndum Asíu og Afríku og leysi hluta af prótínþörfinni. „Afurðir skordýra, eins og hunang, eru borðaðar og býflugnavax og silki eru mikilvægar afurðir sem maðurinn nýtir. Um það bil 80% allra háplantna eru blómplöntur. Þessar plöntur eru háðar skordýrum til að fjölga sér. Skordýrin bera frjókorn á frævur kvenplantna og frjógva plönturnar. Aðeins í undantekningartilfellum sjá vindur, fuglar og leðurblökur um það. Án skordýra munu blómplöntur hverfa af jörðunni.“ 

Gísli Már segir að um það bil 50% og allt að 90% af fæðu manna komi frá blómplöntum. Hlutfallið sé vissulega mismundandi milli landa. „Þarna eru tegundir plantna eins og hrísgrjón, hveiti, ávextir og grænmeti. Einnig eru vatnafiskar háðir skordýrum um fæðu en vatnafiskar eru mikilvæg fæða manna í mörgum löndum. Á Íslandi yrði lítið um silung eða lax í íslenskum ám ef skordýr hyrfu því þau eru yfir 90% af fæðu fiskanna.“

Hægt er að lesa allskyns upplýsingar um skordýr á Vísindavef HÍ og m.a. grein eftir Gísla Má Gíslason þar sem hann víkur að mikilvægi skordýra fyrir aðrar lífverur á jörðinni. 

Það er ókeypis í þessa fróðleiksgöngu og öll eru velkomin. Gott er að vera í vaðstígvélum, hafa ílát undir skordýrin og stækkunargler sem gera gönguna enn skemmtilegri. 
 

Gísli Már Gíslason ásamt samstarfsmanni