Slímgumpur í boði HÍ og FÍ! – Sveppaferð í Heiðmörk
Viltu koma með Háskóla Íslands og Ferðafélagi Íslands í sveppatínslu í Heiðmörk? Ef svarið er já, þá er rakið að grípa tækifærið. Sveppir eru nefnilega hrein náttúruafurð og sælgæti að flestra mati. Þeir vaxa villtir í íslenskri náttúru og ekki síst í skóglendi eins og í Heiðmörk. Þangað er ferðinni einmitt heitið fimmtudaginn 22. ágúst og vísindafólk HÍ mun hjálpa göngufólki að greina ætu sveppina frá þeim vondu og sumir geta reyndar verið eitraðir.
Vísindafólk HÍ verður ekki eitt á ferð í Heiðmörk því fararstjórar úr Ferðafélagi barnanna mæta líka til að fræða öll sem vilja um sveppi - hverja megi borða og hverja ekki.
Fólk er hvatt til að sameinast í einkabíla ef kostur er en haldið verður í halarófu inn í Heiðmörk á bílum frá bílastæðinu við Rauðhóla kl. 17 fimmtudaginn 22. ágúst.
„Rösklega tvö þúsund tegundir sveppa eru skráðar á Íslandi og á hverju ári bætast við nýjar tegundir í þennan sérstaka flokk lífvera,“ segir Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, en hann mun taka vel á móti göngufólki ásamt Ólafi Patrick Ólafssyni sem kennir m.a. plöntulífeðlisfræði og grasafræði við HÍ. Með þeim verður einnig frítt föruneyti frá Háskólanum til að leiðbeina göngufólki.
Gangan fer fram undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ en um er að ræða verðlaunasamstarf milli HÍ og Ferðafélagsins hefur staðið frá aldarafmæli HÍ árið 2011.
Af allri fungunni á Íslandi eru aðeins um 30 tegundir sveppa ætar og bragðast vel segir Gísli Már. „Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega. Sumar flétturnar eru einnig ætar, þar á meðal fjallagrös og hreindýramosi.“
Hægt er að finna æta sveppi um land allt og því má reikna með að vel beri í veiði á fimmtudag í Heiðmörkinni, sem er kjörlendi fyrir sveppi, en sveppir þrífast alla jafna vel nálægt trjágróðri.
Ætla má að ferðin í heild sinni taki um tvær klukkustundir og Gísli Már hvetur öll til að koma með körfur eða ílát undir fenginn og líka bækur.
Af allri fungunni á Íslandi eru aðeins um 30 tegundir sveppa ætar og bragðast vel segir Gísli Már. „Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega. Sumar flétturnar eru einnig ætar, þar á meðal fjallagrös og hreindýramosi.“
Hefur þú mikinn áhuga á að borða slímgump?
Í hinni árlegu sveppaferð hafa fjölskyldur notið fegurðar Heiðmerkur og fróðleiks um sveppina á sama tíma. Fólk á alls ekki að láta afar ljót nöfn fæla sig frá því að bragða á góðum sveppum. Sveppir bera nefnilega margir hvejir ansi ógirnileg nöfn. Fótgíma og slímgumpur eru þannig ekki alveg með heppilegasta heitið fyrir matardiskinn en Gísli Már segir að þessir tveir séu afar gómsætir sveppir.
Í ferðinni í Heiðmörk á fimmtudag verður ekki bara sveppunum safnað því fróðleikur um verkun og eldun fylgir með.
Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát fyrir sveppina eins og áður sagði. Þátttaka er alveg ókeypis og öll velkomin.