Sótti Loftslagsráðstefnu COP28 fyrir hönd Háskóla Íslands
Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði, tók fyrr í mánuðinum þátt í Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrir hönd Háskóla Íslands. Hún segir það skref í rétt átt að tekist hafi að koma ákvæði um að jarðarbúar hætti að reiða sig á jarðefnaeldsneyti inn í lokasamþykkt ráðstefnunnar og bendir jafnframt á vaxandi áherslur á náttúruvernd, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, bæði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að líffræðilegri fjölbreytni í heiminum.
Ingibjörg Svala hefur um áratugaskeið rannsakað áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi lands og líffræðilega fjölbreytni á norðurslóðum, en þar hefur hlýnun loftslags verið umtalsvert hraðari en annars staðar í heiminum. „Ég kenni einnig vistfræði þar sem áhrif loftslagsbreytinga og tap líffræðilegrar fjölbreytni eru ofarlega á baugi og síðan átti ég sæti í Loftslagsráði sem fulltrúi háskólasamfélagsins þar til starfstíma ráðsins lauk í haust. Allt þetta var hvati til þátttöku í COP28 til að kynna mér af eigin raun hvernig samningaviðræðurnar færu fram. Umhverfisráðuneytið samþykkti mig inn í sendinefndina og rektor Háskóla Íslands gaf mér umboð til að fara sem fulltrúi skólans,“ segir Ingibjörg Svala aðspurð um ástæður þess að hún sótti þessa 28. Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Náttúrumiðaðar lausnir mikilvægar í loftslagsbaráttunni
Á ráðstefnunni stóðu norrænu ríkin sameiginlega fyrir fjölbreyttum viðburðum og Ingibjörg Svala tók þátt í einum þeirra ásamt fleiri fulltrúum Norðurlandanna, m.a. fulltrúa Sama og ungs fólks. Á viðburðinum var fjallað um svokallaðar náttúrumiðaðar lausnir undir yfirskriftinni „Nature-based solutions to the Triple Planitary Crisis – Collaborating for a better outcome for the Nordics“.
„Náttúrumiðaðar lausnir byggjast á þremur meginstoðum: náttúruvernd, sjálfbærri nýtingu auðlinda og endurheimt náttúrulegra og umbreyttra vistkerfa. Þær miða að því að takast á við samfélagslegar áskoranir á borð við loftslagsbreytingar, mengun og náttúruhamfarir og tryggja þar með velferð mannsins og verndun líffræðilegrar fjölbreytni,“ útskýrir Ingibjörg Svala.
Hún bendir jafnframt á að um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum í heiminum megi rekja til ósjálfbærrar landnýtingar og því sé til mikils að vinna að stöðva þá losun. „Náttúrumiðaðar lausnir skapa frábæran ramma til árangurs svo framarlega sem þeim er rétt beitt. Í máli mínu á viðburðinum benti ég á helstu áskoranirnar, en þar ber fyrst að nefna mikilvægi þess að byggja á vísindalegri þekkingu og fylgja vel skilgreindum stöðlum þannig að aðgerðirnar séu í sátt við bæði umhverfið og samfélagið. Ef það er ekki gert er hættan sú að aðgerðir í nafni loftslags skapi önnur vandamál og gangi á líffræðilega fjölbreytni, til dæmis með gróðursetningu einsleitra plantekruskóga með framandi og jafnvel ágengum tegundum,“ segir Ingibjörg Svala. Þá segist Ingibjörg Svala hafa bent á að innleiðing markaðar með kolefniseiningar geti verið hvetjandi til beitingar náttúrumiðaðara lausna en að það skapi jafnframt hættu á rangri beitingu þeirra og „grænþvotti“.
„Enn fremur minnti ég á að náttúrumiðaðar lausnir eru langtímalausnir í loftslagsmálum því það tekur yfirleitt langan tíma að ná varanlegum árangri. Aðaláherslan hljóti alltaf að vera á að stöðva þá losun sem nú er í gangi með vernd, endurheimt og sjálfbærri nýtingu lands. Aukin binding kolefnis í vistkerfin kemur sem bónus. Áherslan á náttúrumiðaðar lausnir og hvers kyns tæknilausnir má hins vegar ekki skyggja á aðalviðfangsefnið: að stöðva bruna jarðefnaeldsneytis sem stendur fyrir megninu af hinum 85% af losun af mannavöldum,“ undirstrikar Ingibjörg Svala.
„Í byrjun var ég mjög efins um að allir þessir viðburðir í kringum sjálfar samingaviðræðurnar ættu rétt á sér en eftir að hafa tekið þátt í þessu tel ég að þeir gegni ákveðnu hlutverki við að veita samningsaðilum þrýsting til að ná árangri,“ segir Ingibjörg Svala. MYND/Ingibjörg Svala Jónsdóttir
Vonbrigði að ekki var gengið lengra í útfösun jarðefnaeldsneytis
Segja má að ákveðinn áfangi hafi náðst í þeirri baráttu á ráðstefnunni þegar nærri 200 þátttökuríki komust í fyrsta sinn að samkomulagi um að taka inn í lokasamþykkt ráðstefnunnar ákvæði um að draga úr notkun jarðefna sem orkugjafa á næsta aldarfjórðungi og vinna þannig að því að takmarka hækkun hitastigs á jörðinni við 1,5 gráður eins og kveðið er á um í Parísarsáttmálanum frá árinu 2016.
„Vissulega eru það vonbrigði að ekki var fastar að orði kveðið um útfösun jarðefnaeldsneytis, en það verður þrátt fyrir það að líta á niðurstöðurnar sem skref í rétta átt að loksins, eftir 28 ár, sé jarðefnaeldsneyti komið inn í texta samkomulagsins! Einnig er verk að vinna við að koma inn skýrari ákvæðum sem snúa að verndun líffræðilegrar fjölbreytni og nýtingu lands, meðal annars við matvælaframleiðslu, en ákveðin skref voru tekin í þá átt á COP28 með undirritun yfirlýsinga þar að lútandi,“ segir Ingibjörg Svala innt eftir áliti á meginniðurstöðum ráðstefnunnar.
Ingibjörg Svala ásamt Vöndu Úlfrúnu Liv Hellsing, sérfræðingi og teymisstjóra loftslags í Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu sem var í samninganefnd Íslands á ráðstefnunni. MYND/Ingibjörg Svala Jónsdóttir
Verk að vinna í loftslagsmálum hér á landi
Ingibjörg Svala segir það hafa verið afar lærdómsríkt að fá innsýn inn í hvernig sjálft samningaferlið á ráðstefnunni gekk fyrir sig. Þá hafi hún sótt fjölda eftirminnilega viðburða og nefnir Ingibjörg Svala sérstaklega tvo. Annar þeirra hafi snert framlag þjóða til baráttunnar við loftslagshlýnun. „Samkvæmt Parísarsamkomulaginu eiga aðildarríkin sjálf að setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að skila áætlun um landsframlag til samkomulagsins á fimm ára fresti. Þar eiga að koma fram þau markmið sem viðkomandi ríki setur sér um samdrátt í losun á næsta tímabili. Stöðutaka (e. Global Stocktake, GST) er gerð þremur árum eftir að landsframlagi er skilað inn og það var einmitt eitt aðalmálið á COP28. Þriðja landsframlagi á að skila inn 2025 og á þessum viðburði gerðu fulltrúar þriggja þróunarlanda, Indónesíu, Túnis og Brasilíu, grein fyrir metnaðarfullum áætlunum landa sinna. Greinilegt er að Ísland þarf að taka sér tak til að standa jafnfætis þessum ríkjum,“ bendir hún á.
Hinn viðburðurinn hafi haft það að markmið að skýra samhengið milli loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni út frá ólíkum sjónarhornum. „Fjallað var um hlutverk frumbyggja sem standa vörð um 80% af líffræðilegri fjölbreytni Jarðar, fjölbreytni og heilbrigði fæðu og mikilvægi þess að afla fjármagns úr ólíkum áttum og beina því til verndar náttúrunnar og þar með velferðar mannkyns til framtíðar. Afgerandi er að standa vörð um heildina, eða svo vitnað sé í orð Grethel Aguilar, fulltrúa Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN), sem stýrði umræðum: „Keep the planet intact“,“ útskýrir Ingibjörg Svala.
Samningurinn gefur von um lausn á ógnarvanda
Aðspurð hvað standi upp úr þegar hún horfi til baka á ráðstefnuna nefnir Ingibjörg Svala tvennt. „Annars vegar mikilvægi þess að ríki heims sameinist um loftslagssamning því það gefur von um að taka megi á þessum ógnarvanda sem við blasir. Í byrjun var ég mjög efins um að allir þessir viðburðir í kringum sjálfar samingaviðræðurnar ættu rétt á sér en eftir að hafa tekið þátt í þessu tel ég að þeir gegni ákveðnu hlutverki við að veita samningsaðilum þrýsting til að ná árangri. Hins vegar stendur upp úr sú áhersla sem fjöldi viðburða lögðu á að loftslagssamningurinn og samningurinn um líffræðilega fjölbreytni vinni saman,“ segir hún að endingu.