Stærsti Frændafundur frá upphafi
Íslensk-færeyska ráðstefnan Frændafundur verður haldin dagana 16.-18. ágúst næstkomandi í Háskóla Íslands, nánar tiltekið á 2. hæð í Odda. Alls verður boðið upp á um 60 fyrirlestra og hafa þeir aldrei verið fleiri á þessari ráðstefnu.
Frændafundur er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja og fer nú fram í 11. sinn. Á ráðstefnunni er fjallað um viðfangsefni sem tengjast Íslandi eða Færeyjum en markmiðið er að leiða saman íslenska og færeyska fræðimenn á ólíkum sviðum og skapa ný tækifæri til rannsóknasamstarfs milli þessara frændþjóða.
Ráðstefnan, sem fer fram á ensku, færeysku og íslensku, er þverfræðileg og erindin munu snerta afar fjölbreytileg fræðasvið, t.d. málfræði, menntavísindi, þjóðfræði, heilbrigðisvísindi, ferðamálafræði, félagsfræði, máltækni, jarðfræði, orkumál og málefni norðurslóða.
Fimm boðsfyrirlestrar verða á ráðstefnunni en þeir fjalla um sjálfbærni og orkumál í Færeyjum, kórónuveirufaraldurinn í báðum löndum, áhrif ensku á íslensku og færeysku, kennaramenntun á Íslandi og í Færeyjum og virkjun sjávarfalla í Færeyjum.
Ráðstefnan er opin öllum áhugasömum þeim að kostnaðarlausu og það er engin skráning.
Dagskrá og útdrætti úr erindum má finna á Facebook-síðu ráðstefnunnar: